Örnninn er lentur
Örnninn er lentur

Fréttir

Guðmundur Ágúst komst áfram á Irish Challenge
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Ljósmynd: golfsupport.nl/Richard Martin-Roberts
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
föstudaginn 29. júlí 2022 kl. 15:43

Guðmundur Ágúst komst áfram á Irish Challenge

Bjarki er úr leik

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG komst áfram á þriðja hring á Irish Challenge en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu. Guðmundur Ágúst og Bjarki Pétursson, sem einnig er úr GKG luku leik á öðrum hring fyrr í dag.

Þeir félagar áttu ekki sinn besta dag á fyrsta hring en Bjarki kom í hús á 76 höggum eða á 4 höggum yfir pari The K Club vallarins í Kildare á Írlandi og Guðmundur Ágúst á 74 höggum eða á 2 höggum yfir pari vallarins. Heimamaðurinn Conor Purcell leiddi mótið eftir fyrsta hringinn á 7 höggum undir pari.

Okkar menn léku báðir talsvert betur á öðrum hringnum. Bjarki lék fyrri níu holur sínar í dag á 2 höggum undir pari en hann var ræstur út af 10. teig. Hann fékk fugl strax á fyrstu holu dagsins en svo fylgdu tveir skollar áður en hann svaraði með glæsilegum erni á 16. braut og fugli á þeirri 18. Annar fugl leit dagsins ljós á 10. braut en Bjarka fataðist flugið undir lok hringsins, fékk þrjá skolla á síðustu fmm holunum og kom í hús á 72 höggum eða á pari vallarins.

Guðmundur Ágúst var ræstur út af 1. teig í dag. Hann var kominn tvö högg undir par eftir fimm holur. Þá fékk hann skolla sem hann svaraði með fugli og kom inn eftir fyrri níu holurnar á 2 höggum undir pari. Guðmundur hóf seinni níu holurnar með látum en hann fékk þrjá fugla á fyrstu fimm holunum og var þá kominn á 5 högg undir par á hringnum. Svekkjandi tvöfaldur skolli á 18. holu varð þó til þess að hann skilaði inn skori upp á 69 högg eða 3 högg undir par.

Guðmundur er samtals á 1 höggi undir pari að loknum tveimur hringjum sem dugaði til að komast í gegnum niðurskurðinn en Guðmundur er akkúrat á niðurskurðarlínunni.

Það er hinn enski, Todd Clements, sem leiðir mótið inn í helgina á 13 höggum undir pari.

Guðmundur Ágúst sagðist í samtali við kylfing.is hafa leikið svipað golf báða dagana.

„Ég missti nær alla fuglasénsana mína í gær en í dag setti ég þá nær alla í. Ég hef heilt yfir verið frekar lélegur af teig fyrstu tvo dagana og fékk að kenna á því á lokaholunni báða dagana.“

Guðmundur segir völlinn bjóða upp á mikla möguleika.

„Þetta er alvöru golfvöllur, mjög skoranlegur meðan maður er á braut en ef ekki þá er hann frekar snúinn.“

Staðan á mótinu

Guðmundur Ágúst verður ræstur út á þriðja hring laust fyrir klukkan átta í fyrramálið á íslenskum tíma en Bjarki er úr leik.