Fréttir

Gríðarleg eftirvænting fyrir Ryder bikarnum
Bethpage Black er talinn vera einn erfiðasti golfvöllur í heimi.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 24. september 2025 kl. 14:34

Gríðarleg eftirvænting fyrir Ryder bikarnum

Eitt skemmtilegasta íþróttamót í heimi, Ryder bikarinn, hefst á föstudag á Bethpage Black vellinum í New York. Gríðarleg eftirvænting er fyrir mótinu en síðustu áratugina hefur Evrópuliðið unnið mun oftar en fyrstu ár mótsins keppti úrvalslið Stóra Bretlands á móti Bandaríkjamönnunum sem höfðu mikla yfirburði þegar það var. Á þessu varð breyting árið 1979 þegar úrvalsliðið var í fyrsta skipti skipað leikmönnum frá Evrópu og vannst sigur í fyrsta sinn þannig 1985 á Belfry vellinum.

Evrópumenn sigruðu í skemmtilegri viðureign í Róm fyrir tveimur árum en Bandaríkjamenn unnu öruggan sigur árið 2021. Í síðustu tíu skipti sem keppnin hefur farið fram hefur Evrópa sigrað sjö sinnum en Bandaríkin þrisvar.

Fyrst var leikið árið 1927 og í heild hafa Bandaríkjamenn unnið 27 sinnum en Evrópa 15 sinnum. Bandaríkjamenn hafa ekki unnið á „útivelli“ síðan 1993. Evrópa vann síðast á útivelli 2012 en hafa tapað í síðustu tvö skipti þegar leikið hefur verið vestra.

Eitt af málefnum sem hafa komið upp undanfarna daga er greiðsla til leikmanna. Evrópumenn hafa aldrei fengið greitt en bandarísku leikmennirnir hafa fengið greiðslu allt frá árinu 1999, sem þeir hafa gefið til einhverra góðgerðarmála. Nú í ár fá þeir tæpar 40 millj. kr. til þess en þeir fá líka um 25 millj. kr. hver sem þeir mega nota að vild.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna mun heimsækja mótið á föstudag. Aukin öryggisgæsla verður þann dag á mótssvæðinu.

Fyrirliði Evrópu er Englendingurinn Luke Donald en Keegan Bradley stýrir bandaríska liðinu. Luke Donald hefur það á ferilskránni að hafa tapað viðureign gegn Íslendingnum Erni Ævari Hjartarsyni þegar England og Ísland áttust við á Evrópumóti landsliða í Svíþjóð árið 2002.

Evrópuliðið, keppendur og makar.

Bandaríkjamenn með spúsum sínum.

Bryson DeChambeau mun án efa sýna alvöru tilburði, hann er líklegur til að halda uppi stemmingu í bandaríska liðinu sem oft hefur vantað. 

Evrópumenn í góðri stemmningu í New York

Luke Donald með eiginkonu sinni á gala kvöldi fyrir Ryderinn.

Spánverjinn Jon Rahm með glæsilegri eiginkonu sinni.

Bjórinn og kokteilar kosta sitt, bjórinn um kr. 2000 glasið.

Luke Donald sýnir aðstöðu Evrópuliðsins

JJ Spaun er nýliði í bandaríska liðinu.