Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Golfskálinn eflir ferðaþjónustu og golfkennslu – Rögnvaldur ráðinn forstöðumaður
Miðvikudagur 20. ágúst 2025 kl. 11:18

Golfskálinn eflir ferðaþjónustu og golfkennslu – Rögnvaldur ráðinn forstöðumaður

Golfskálinn hefur ráðið Rögnvald Magnússon sem nýjan forstöðumann ferðaþjónustu. Rögnvaldur er PGA golfkennari með áralanga reynslu úr golfkennslu og ferðaþjónustu. Rögnvaldur lauk PGA námi árið 2012 og hefur síðan starfað sem golfkennari og sem meðeigandi hjá Golf Akademíunni í Oddi frá 2016. Auk þess hefur hann leitt fjölmarga golfhópa erlendis sem fararstjóri.
„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Rögnvald til liðs við Golfskálann. Þekking hans og reynsla úr golfheiminum mun styrkja okkur verulega í þeirri vegferð að þróa bæði golfskólann og ferðaþjónustu Golfskálans. Markmiðið okkar er að bjóða upp á heildstæða upplifun og þjónustu við golfara – hvort sem er á heimavelli eða á ferðalögum erlendis,“ segir Kári Steinn Karlsson, framkvæmdastjóri Golfskálans.
„Ég er mjög spenntur að taka við þessu hlutverki hjá Golfskálanum. Golfið hefur verið stór hluti af mínu lífi og ég hlakka til að nýta þá reynslu sem ég hef safnað mér í kennslu og ferðaþjónustu til að þróa starfsemina enn frekar. Markmið mitt er að búa til skemmtilegar og lærdómsríkar upplifanir fyrir kylfinga – hvort sem þeir eru að stíga sín fyrstu skref í golfi eða fara með okkur í draumaferðina erlendis,“ segir Rögnvaldur.
Golfskólinn hjá Golfskálanum hefur nú þegar fest sig í sessi sem einn mest spennandi valkosturinn fyrir kylfinga á öllum aldri og getustigum. Með komu Rögnvalds verður skólinn efldur enn frekar með áframhaldandi áherslu á persónulega kennslu, faglega umgjörð og gera golfiðkendur betri og upplifunina enn skemmtilegri.
Golfskálinn mun á sama tíma halda áfram að byggja upp sterka ferðaþjónustu fyrir kylfinga með fjölbreyttum ferðum til spennandi áfangastaða. Með öflugu teymi og reyndum fararstjórum er boðið upp á tækifæri til þess að sameina ferðalög, góða golfkennslu og  frábæra samveru, segir í tilkynningu frá Golfskálanum.
Örninn 2025
Örninn 2025