Fréttir

GG opnar golfhermi í Grindavík
Formaður GG, Hávarður Gunnarsson, tekur upphafshöggið í nýrri aðstöðu GG í íþróttamiðstöð Grindavíkur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 4. mars 2025 kl. 12:56

GG opnar golfhermi í Grindavík

Eitt lægsta ársgjald á Íslandi á velli sem er í stuttri fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu

Mikill hugur er í forsvarsfólki Golfklúbbs Grindavíkur (GG) en nýlega var golfhermirinn tekinn aftur í notkun, honum hafði verið komið fyrir í iðnaðarhúsnæði nálægt höfninni en var fjarlægður þaðan eftir hamfarirnar. Ný staðsetning hermisins er í íþróttamiðstöð Grindavíkur.
Húsatóftavöllur kom einstaklega vel undan síðasta vetri og lítur mjög vel út núna og mun hugsanlega opna fyrr en venjulega inn á sumarflatir en undanfarin ár hefur verið miðað við sumardaginn fyrsta. Vellirnir á höfuðborgarsvæðinu geta ekki opnað svo snemma og því hefur alltaf verið mikil umferð á vorin á Húsatóftavelli sem þykir einstaklega fjölbreyttur og skemmtilegur völlur. 
Talsvert brottfall hefur verið úr klúbbnum í kjölfar hremminganna í Grindavík en neyðin kennir naktri konu að spinna segir einhvers staðar. Forsvarsfólk GG hefur snúið vörn í sókn og býður einstaklega hagstætt árgjald og til að auka tekjurnar þá mun starfsfólk klúbbsins líka slá knattspyrnuvellina í Grindavík en karlalið Grindavíkur mun leika heimaleiki sína í Grindavík í sumar.
Helgi Dan Steinsson, framkvæmdastjóri GG.

Framkvæmdastjóri GG, Helgi Dan Steinsson, fagnar afmæli í dag en hann skortir ekki nema eitt ár í að fylla fimm tugi. Hann var brattur að vanda þegar blaðamaður náði tali af honum.

„Það gleður okkur mikið að segja meðlimum GG frá því að golfhermirinn okkar er kominn í fulla notkun og er núna staðsettur í íþróttamiðstöð Grindavíkur. Tímapantanir fara fram í gegnum Noona-appið og nú þegar hafa fjölmargir meðlimir komið og spreytt sig í herminum.

Húsatóftavöllur kom einstaklega vel undan síðasta vetri og mér sýnist hann ætla koma enn betur út í ár en við skulum ekki jinx-a hlutina, veturinn er ekki búinn. Síðasta sumar gekk í raun ótrúlega vel ef mið er tekið af hömlunum sem okkur voru settar, við máttum ekki leika bakkana svokölluðu fyrr en talsvert var liðið á sumarið og við þurftum að glíma við lokanir og kylfingar lentu í vandræðum með að komast í gegnum lokunarpósta. Við kvörtum samt ekki, reksturinn gekk í raun ótrúlega vel og það er hugur í okkur fyrir komandi sumar. Það hefur verið talsvert brottfall úr klúbbnum og það er miður. Grindvískir kylfingar lenda þá í sama vandamáli og kylfingar á höfuðborgarsvæðinu, þeir komast ekki strax í klúbbana þar vegna langs biðlista og ef þeir kæmust inn, þurfa þeir að panta rástíma þrjá daga fram í tímann. Vegna þess brottfalls ákváðum við að lækka árgjaldið hjá okkur niður í 44.900 kr en tökum að sjálfsögðu á móti hærra framlagi meðlima ef vilji er fyrir hendi. Ég vona að þetta muni ná augum kylfinga af höfuðborgarsvæðinu og þeir íhugi að ganga í okkar frábæra klúbb. Ég veit með mig persónulega, ég myndi allan daginn leggja á mig þennan stutta rúnt til að geta leikið golf nánast þegar mér hentar, á frábærum golfvelli sem er í senn fjölbreyttur, skemmtilegur og með alls kyns áskoranir, á móti því að hanga fyrir framan tölvuskjáinn á miðnætti þremur dögum fyrir áætlaðan rástíma.

Stakkavíkurvöllurinn er talinn á meðal betri grasvalla landsins þegar hann skartar sínu fegursta.

Sláttur knattspyrnuvalla

Til að bregðast við brottfalli úr klúbbnum og þar með minni tekjum, brá stjórn GG á það ráð að bjóðast til að slá knattspyrnuvellina í Grindavík í sumar.

„Þegar þessi hugmynd kom upp þá kviknaði einfaldlega ljós hjá okkur öllum, þá á ég við bæði okkur hjá GG, bæjaryfirvöldum í Grindavík og stjórn knattspyrnudeildarinnar. Það þarf að hirða um knattspyrnuvellina, þetta fyrirkomulag var einu sinni við lýði og verður tekið aftur upp núna. Mér finnst þetta frábært hjá stjórn knattspyrnudeildar, það er kominn tími til að fara hefja uppbyggingu Grindavíkur og það að ákveða að leika heimaleikina í Grindavík, er ofboðslega sterk skilaboð í þá veru. Ég hlakka til að mæta með sláttuvélina í sumar á knattspyrnuvöllinn og hlakka mikið til sumarsins. 

Fyrir þá sem vilja skoða að gerast félagar í GG, ég hvet alla til að hafa samband við mig og fræðast frekar. Við Grindvíkingar munum taka öllum opnum örmum,“ sagði afmælisdrengurinn Helgi Dan Steinsson.