Fyrirtæki sem Nicklaus stofnaði gjaldþrota eftir að hann vann 50 millj. dollara dómsmál gegn því
Minna en mánuði eftir að hafa tapað 50 milljóna dala dómsmáli gegn stofnanda sínum, Jack Nicklaus, hefur fyrirtækið Nicklaus Companies verið neytt til að lýsa yfir gjaldþroti.
Nicklaus, sem hefur unnið 18 risamót á ferlinum, höfðaði meiðyrðamál gegn fyrrum fyrirtæki sínu vegna ummæla sem komu fram í fyrra dómsmáli.
Í því máli var haldið fram að „Gullbjörninn“ hefði íhugað 750 milljóna dala tilboð um að verða eitt af „andlitum“ LIV mótaraðarinnar sem studd er af sádi-arabískum fjárfestum.
Lögmenn Nicklaus lögðu fram gögn sem sýndu að stjórnandi hjá Nicklaus Companies hefði skipulagt fund í Sádi-Arabíu til að ræða hugsanlega hönnun golfvallar eftir Nicklaus.
Þar hefði hann komist að því að sádi-arabískir fulltrúar vildu fá hann sem einn af leiðtogum nýju mótaraðarinnar.
Samkvæmt Jack Nicklaus hafði hann engan áhuga á tilboðinu og hafnaði því, þar sem hann taldi PGA mótaröðina vera mikilvægasta hluta arfleifðar sinnar.
„Ef PGA Tour væri ekki fylgjandi nýrri mótaröð, vildi hann ekki taka þátt,“ segir í dómsgögnum.
Það var síðan haldið fram að Nicklaus Companies hefði sjálft dreift orðrómum um áhuga Jack á tilboðinu, sem hefði skaddað orðspor hans.
Dómurinn féll Nicklaus í vil, og var fyrirtækinu gert að greiða honum 50 milljónir dala í bætur. Aðeins mánuði síðar hefur Nicklaus Companies tilkynnt áform um gjaldþrotaskipti.
Fyrirtækið sagði jafnframt í yfirlýsingu sinni að það væri að íhuga áfrýjun á dómnum.


