Fréttir

Franskur sigur í fyrsta sinn í rúm 120 ár á PGA mótaröðinni
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 31. janúar 2024 kl. 14:41

Franskur sigur í fyrsta sinn í rúm 120 ár á PGA mótaröðinni

Frakkinn Matthieu Pavon vann sinn fyrsta sigur á PGA mótaröðinni um síðustu helgi þegar hann setti niður sigurpútt á lokaholunni á Farmers mótinu. Þetta er fyrsti sigur fransks kylfings á mótaröðinni í meira en hundrað ár eða síðan 1907. Daninn Nicolai Højgaard deildi öðru sætinu en þeir tveir unnu sér þátttökurétt á PGA mótaröðinni með því að vera meðal fimmtán efstu á DP mótaröðinni á síðasta ári. Það er í fyrsta sinn sem kylfingar á Evrópuröðinni fá þátttökurétt á PGA en mótaraðirnar hafa aukist samstarf sitt.

Hinn 31 árs gamli Frakki vann sinn fyrsta sigur á DP mótaröðinni í október síðastliðinn. Hann lék gott golf í fyrra og var oft í toppbarátunni. Hann lék í sínu fyrsta PGA móti á Sony mótinu vikuna á undan og endaði í 39. sæti. Þar var líka óvæntur sigurvegari þegar áhugamaðurinn Dunlap sigraði. Óvæntir sigrar á PGA mótaröðinni, sigrar sem breyta gríðarlega miklu fyrir báða kylfinga. Dunlap er að gerast atvinnumaður og Pavon færist upp á heimslistanum svo um munar.

Frakkinn hefur því aldeilis stimplað sig inn á PGA. Pavon átti frábært innáhögg úr þykkum karga á lokabrautinni á Famers mótinu og setti svo þriggja metra pútt ofan í á Torrey Pines vellinum. Með sigrinum skaust hann upp í 2. sætið í FedEx stigakeppninni.

Pavon hefur ekki farið neina venjulega leið upp á við í golfi atvinnumanna. Móðir hans er golfkennari í Bordeaux í Frakklandi. Hann var ekki afburða kylfingur sem áhugamaður en hélt þó baráttunni áfram og fór til Bandaríkjanna til að bæta sinn leik, komst rétta leið í gegnum fyrrverandi kylfusvein Skotans Sandy Lyle. Hann var þó í vandræðum með stutta spilið en það lagaðist mikið þegar hann breytti um „stíl“ þegar hann byrjaði að vippa með vinstri höndina fyrir neðan þá hægri, líkt og Englendingurinn Matt Fitzpatrick gerir. Pavon lék á lítilli mótaröð í Evrópu 2014, vann þar mót og komst inn á Áskorendamótaröðina og síðan DP mótaröðina þar sem hann hefur leikið síðustu sjö ár með þokkalegum árangri. Á sex árum varð hann þrisvar í 3. sæti en fyrsti sigurinn kom ekki í hús fyrr en í október 2023. Hann komst á lokamótið á DP mótaröðinni og þar lék hann vel og tryggði sér þátttökurétt á PGA.

Sigurinn á PGA færir Pavon þátttökurétt á öllum stærstu mótum ársins á mótaröðinni, m.a. Player’s mótinu og Masters. „Þetta er risa stórt. Það dreymir alla franska kylfinga um að komast á PGA. 

Á Farmers mótinu voru evrópskir kylfingar í toppbaráttunni því auk Pavons og Nicolai voru Belginn Thomas Detry frá Belgíu og Þjóðverjinn Stephan Jaeger í toppbarátunni, sá síðarnefndi var með forystu í dágóðan tíma en þrír skollar á lokahringnum gerðu draum hans að engu. Svona er golfið.

Lokapúttið hjá Pavon sem tryggði honum sigurinn. Kylfingur.is/golfsupport.nl