Örninn22_bland
Örninn22_bland

Fréttir

Evrópumótaröðin komin til Frakklands
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 11:48

Evrópumótaröðin komin til Frakklands

Ólafía Þórunn og Guðrún Brá tía upp á Evian Resort

Jabra Ladies Open hefst á morgun á Evrópumótaröðinni en leikið er á Evian Resort í Frakklandi. Mótið er annað mótið í Evrópu á þessu keppnistímabili á mótaröðinni en mótaröðin hefur ferðast um allan heim í vor.

Okkar konur, Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, verða í eldlínunni.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Um er að ræða sjötta mót Guðrúnar Brár á keppnistímabilinu á Evrópumótaröðinni en Ólafía Þórunn er að koma til baka eftir langt hlé. Ólafía og eiginmaður hennar, Thomas Bojanowski, eignuðust soninn, Maron, í júní á síðasta ári.

Guðrún Brá sagði í stuttu spjalli við Kylfing að Evian Resort væri fáranlega flottur staður.

„Ég hef spilað hérna nokkrum sinnum áður og þekki völlinn ágætlega. Völlurinn er í topp standi og veðrið hefur verið mjög gott. Það er hrikalega gott að komast úr hitanum og rakanum í Taílandi. Ég æfi í dag og hlakka mikið til að byrja að spila á fimmtudag,“ segir Guðrún Brá að lokum.

Ólafía Þórunn tekur undir orð Guðrúnar Brár um stöðuna á vellinum.

„Já, hann er í frábæru standi eins og við má búast hér á Evian Resort. Ég spilaði 18 holu æfingahring í dag og hlakka mikið til að byrja að keppa aftur. Það er svakalega gaman að vera að fara að spila á Evrópumótaröðinni aftur.“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á æfingahring á Evian Resort í vikunni.

Guðrún Brá verður ræst út á fyrsta hring laust fyrir klukkan sex í fyrramálið og Ólafía Þórunn upp úr klukkan sjö í fyrramálið á íslenskum tíma. Þá verður Guðrún Brá ræst út á annan hring upp úr klukkan tíu á föstudagsmorgun og Ólafía Þórunn rétt fyrir tólf á hádegi á föstudag.

Kylfingur fylgist vel með framgöngu þeirra Guðrúnar Brár og Ólafíu Þórunnar á mótinu.