Er með alvarlegt tilfelli af golfbakteríunni
Gummi Ben missir varla úr dag
„Ég prófaði golf ekki mikið þegar ég var ungur pjakkur á Akureyri, aðrar íþróttir áttu hug minn allan þá en eftir að ég byrjaði fyrir nokkrum árum, er ég algerlega orðinn heltekinn af þessari stórkostlegu íþrótt,“ segir íþróttafréttamaðurinn góðkunni og fyrrum knattspyrnumaðurinn, Guðmundur Benediktsson. Gummi Ben er Akureyringur og æfði allar boltagreinar um tíma en fljótlega varð ljóst að knattspyrnan yrði ofan á og var hann um tíma atvinnumaður í greininni. Ungur að árum lenti hann í slæmum meiðslum og um tíma leit út fyrir að knattspyrnuferlinum væri lokið áður en hann hófst nánast, atvinnumennsku erlendis lauk en hann samdi svo við KR og var í liðinu sem braut loksins ísinn hvað varðar Íslandsmeistaratitil, hann var í liðinu sem náði þeim stóra loksins árið 1999. Fleiri titlar fylgdu hjá KR og Gummi skipti svo yfir í Val, kominn hátt á fertugsaldurinn og skilaði líka Íslandsmeistaratitli þar árið 2007 en ferlinum lauk svo hjá KR árið 2009.

Gummi á ekki von á að landa Íslandsmeistaratitli í golfi en hefur afskaplega gaman af íþróttinni í dag og er forfallinn golfsjúklingur.
„Ég gaf mér ekki tíma þegar ég var yngri á Akureyri, ég bjó langt frá golfvellinum og var á kafi í fótbolta á sumrin. Eftir að ég flutti suður og spilaði með KR þá fór liðið í eitt og eitt skipti í golf en ég var aldrei þannig að ég hellti mér af fullum krafti, ég sá samt að ég myndi nú gefa golfinu gaum að loknum knattspyrnuferlinum. Ég byrjaði samt rólega, þetta voru bara nokkrir hringir á ári og þá náði maður eðlilega ekki miklum árangri. Það var ekki fyrr en vinur minn keypti sér íbúð á Spáni að ég hellti mér af fullum krafti, hef farið oft með honum og þá er spilað á fullu svo það má segja að ég sé búinn að vera á kafi í golfi undanfarin þrjú ár. Sem betur fer tókst mér að víla konuna með mér í sportið, við komumst inn í golfklúbb í vor, fengum inn í Nes-klúbbnum úti á Seltjarnarnesi, margir morgnar hjá okkur byrja þar. Ég hef aldrei áður spilað svo mikið golf, hef t.d. nánast farið daglega undanfarinn mánuð, veðrið hefur leikið við okkur og það tækifæri hef ég einfaldlega nýtt til hins ýtrasta.“
Eins stafa forgjafatala
Margir íþróttamenn eru fljótir að ná tökum á golfíþróttinni, Gummi er með rúma 13 í forgjöf í dag og ætlar sér neðar.
„Golf er líklega skrýtnasta íþrótt í heimi, maður heldur að maður sé „kominn með´etta“ og daginn eftir er allt í skrúfunni! Ég skráði mig ekki til forgjafar fyrr en í sumar því ég var aldrei í klúbbi, á sex dögum fór ég úr 54 í 10,2, blessunarlega fór lækkunin ekki fram í mótum, mér hefði væntanlega verið vísað úr viðkomandi móti! Þessi 10-forgjöf var nú eitthvað dularfull, ég held meira að segja að þessir rúmu 13 sem ég er með í dag sé ekki rétt, ætli ég sé ekki nær 15. Markmiðið er klárlega að komast niður fyrir 10, skemmtilegra að geta sagst vera í einnar-stafa forgjafartölu en til að komast þangað þarf ég klárlega að bæta púttin. Ég er duglegur í herminum yfir veturinn en þá er ekkert púttað og þótt maður gæti verið að æfa þau meira, hafa þau setið á hakanum. Mig vantar betri tilfinningu þar, hálf sorglegt að labba trekk í trekk með skolla þegar fyrsta púttið var fyrir fugli! Stutta spilið má líka batna, ég er sterkastur af teig en golfið gerist mest í kringum flatirnar og á þeim. Fyrstu árin notaði ég reyndar ekki dræver á teig, var bara með járn en er búinn að ná góðum tökum á drævernum í dag og þá er bara að vinna í stutta spilinu. Það gengur ekki að skila sér í tveimur höggum á eða við flöt á par-5 braut og labba svo í burtu með tvöfaldan skolla. Ef ég næ tökum á stutta spilinu á ég að leika mér að því að fljúga niður fyrir 10 og það er fyrsta markmiðið en hvort ég nái því í sumar eða síðar kemur bara í ljós, þangað til mun ég njóta golfsins til hins ýtrasta,“ sagði Gummi Ben að lokum.