Doddi og Bjargey best í Öndinni
Áttatíu pör mættu til leiks á Hjóna- og paramót Golfskálans á Öndverðarnesvelli um síðustu helgi. Keppnin var mjög spennandi og réðust úrslitin á síðustu holu. Bjargey Aðalsteinsdóttir og Þorsteinn Guðjónsson stóðu uppi sem sigurvegarar með 88 punkta, einum meira en Páll M. Egonsson og Ragnhildur H. Guðbrandsdóttir.
Hjóna- og paramót eru orðin meðal vinsælustu móta og mikið sótt. Leiknar voru 36 holur, betri bolti fyrri daginn en „greensome“ seinni daginn en þá reynir virkilega á sambandið eða hjónabandið. Ekki er laust við að heyrst hafi eitt og eitt „blót“, ekki bárust fréttir af neinum skömmum svo vitað sé! Að loknu móti var glæsilegt lokahóf og verðlaunaafhending. Glæsilegur kvöldverður var borinn fram og skálað eitthvað fram eftir nóttu.
Veðrið lék við keppendur og sultublíða báða dagana. Eftir níu holur báða daga var boðið upp á vöfllur með rjóma og kakó.
Öndverðarnesið hefur sjaldan verið betra og mikil ánægja er með völlinn og klúbbstarfið er mjög sterkt.
Páll M. Egonson og Ragnhildur kona hans enduðu í 2. sæti.
Hjónin Gígja Hrönn og Bergsveinn Bergsveinsson, fyrrv. handboltamarkvörður voru í miklu stuði á öðrum hring. Hann sló boltann sinn 40 sm. frá holu á 13. braut en tveimur holu síðar, á 15. braut bætti hún um betur og setti boltann sinn 20 sm. frá holu. Frábær högg hjá þeim báðum og nálægt holu í höggi í sama hringnum.
Ritstjóri kylfings.is lék með tveimur fyrrverandi þekktum íþróttaköppum sem er oft líkt og „ruglað“ saman; Keflvíkingnum og fyrrum körfuboltagaurnum Albert Óskarssyni og Bergsveini Bergsveinssyni, Hafnfirðingi og fyrrum handboltakappa. Hér er mynd af þessum myndarlegu kylfingum. Þokkalega álíkir eða hvað?
Stemmningin var góð í blíðunni í Öndinni.
Margeir Vilhjálmsson tók við sem framkvæmdastjóri og vallarstjóri í Öndverðarnesi í byrjun árs.