Public deli
Public deli

Fréttir

Böðvar Bragi og Helga Signý sigurvegarar á Hlíðavelli
Sunnudagur 28. maí 2023 kl. 21:50

Böðvar Bragi og Helga Signý sigurvegarar á Hlíðavelli

Fysta mótið á Unglingamótaröð GSÍ var leikið í Mosfellsbæ um helgina. Leikið var samkvæmt nýrri flokkaskiptingu í flokkum 17-21 árs og 15-16 ára á Hlíðavelli. 14 ára og yngri léku á Bakkakotsvelli.

Klúbbmeistarar Golfklúbbs Reykjavíkur 2022 systkinin Böðvar Bragi Pálsson og Helga Signý Pálsdóttir sigruðu í flokki 17-21 árs. Böðvar Bragi sem lék 36 holurnar á 145 höggum háði harða keppni við Gunnlaug Árna Sveinsson GKG en Gunnlaugur Árni lék seinni 18 holurnar á 66 höggum eftir að hafa byrjað illa og leikið þær fyrri á 81 höggi. Hann varð því annar á 147 höggum. Böðvar lék hinsvegar nokkuð jafnt golf, fyrri 18 á 71 og þær seinni á 74. Veigar Heiðarsson GA, Tómas Eiríksson Hjaltested GR, Jóhann Frank Halldórsson GR og Svanberg Addi Stefánsson GK deildu þriðja sætinu á 149 höggum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Helga Signý sem lék á 161 höggi hélt haus á síðustu holunum þegar hún sigldi framúr Elsu Maren Steinarsdóttur GL (162 högg) og Heiðu Rakel Rafnsdóttur GM (163 högg). Æsispennandi keppni hjá stúlkunum.

Markús Marelsson GK hafði betur gegn Guðjóni Frans Halldórssyni GKG en þeir tveir voru í sérflokki í flokki 15-16 ára pilta. Markús lék síðustu 9 holurnar á 2 höggum undir pari, meðan Guðjón var á tveimur yfir. 

Eva Kristinsdóttir GM var í sérflokki á heimavelli  hjá 15-16 ára stúlkum. Hún lék á 157 höggum. Næstar komu Auður Bergrún Snorradóttir GM á 163 höggum og Pamela Ósk Hjaltadóttir GM á 164 höggum. Algerir yfirburðir hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar í þessum flokki. 

Unglingar í flokki 14 ára og yngri léku á Bakkakotsvelli. Arnar Daði Svavarsson GKG hafði algera yfirburði hjá drengjunum lék 36 holurnar á 128 höggum eða 12 höggum undir pari. Frábær árangur hjá þessum unga og efnilega kylfingi. Björn Breki Halldórsson GKG varð annar á 144 höggum og Hjalti Kristján Hjaltason þriðji á 145 höggum.

Eva Fanney Matthíasdóttir GM sigraði með yfirburðum í stúlknaflokki á 149 höggum. Næstar komu Sara María Guðmundsdóttir GM á 161 höggi og Embla Hrönn Hallsdóttir GM á 165 höggum.

Frábær skor á Bakkakotsvelli og ljóst að stífar vetraræfingar eru að skila sér í góðu skori hjá ungum kylfingum sem spennandi verður að fylgjast með í sumar.