Fréttir

Axel fór holu í höggi á Thomas Bjørn Samsø Classic
Axel Bóasson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 8. júní 2022 kl. 11:13

Axel fór holu í höggi á Thomas Bjørn Samsø Classic

Axel og Bjarki við toppinn. Andri Þór og Aron Snær nýfarnir út.

Axel Bóasson úr GK sló draumahöggið á 8. braut Samsø vallarins í Danmörku á Thomas Bjørn Samsø Classic en mótið er hluti af Ecco mótaröðinni.

Axel hóf leik á 17. braut og var á 1 höggi undir pari þegar hann steig upp á 8. teiginn.

Axel segist í örstuttu spjalli við kylfing.is hafa slegið fullkomið högg með fleygjárni.

„Þetta voru 144 metrar, það var smá vindur frá hægri til vinstri, léttur bakspuni og ofan í - alveg fullkomið högg. Ég hef aldrei farið holu í höggi í móti áður, það var mjög gaman.“

Axel blandaði sér í toppbaráttuna með högginu og fékk þá einn fugl til viðbótar og kom í hús á 4 höggum undir pari. Hann er sem stendur í 2.-5. sæti en margir eiga eftir að ljúka leik.

Axel segir að stemningin sé góð á mótinu.

„Það er fínasta veður og völlurinn er skemmtilegur. Við erum að spila með áhugamönnum svo það er ákveðinn léttleiki yfir þessu,“ sagði Axel Bóasson að lokum.

Bjarki Pétursson úr GKG lék einnig mjög vel í dag. Hann kom í hús á 4 höggum undir pari, rétt eins og Axel, og tapaði ekki höggi á hringnum. Bjarki er því einnig sem stendur í 2.-5. sæti.

Rasmus Broholt Lind frá Danmörku leiðir mótið eins og er á 5 höggum undir pari.

Staðan á mótinu

Þeir Andri Þór Björnsson úr GR og Aron Snær Júlíusson úr GKG voru rétt í þessu að fara út á fyrsta hring. Axel og Bjarki eiga rástíma á öðrum hring klukkan 11:30 á íslenskum tíma á morgun, fimmtudag.

Skorkort Axels

Skorkort Bjarka