Heimsferðir
Heimsferðir

Fréttir

Áskorendamótaröðin komin til Evrópu
Haraldur Frankín Magnús á Jonsson Workwear Open í Durban í Suður-Afríku í febrúar. Haraldur hafnaði í 3. sæti á mótinu.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 07:50

Áskorendamótaröðin komin til Evrópu

Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst tía upp á Spáni

Challenge de Espana hefst á morgun á Áskorendamótaröð Evrópu en leikið er á Novo Sankti Petri vellinum á Iberostar í Cadiz á Spáni sem margir Íslendingar hafa spilað í gegnum tíðina. Okkar menn, Haraldur Franklín Magnús úr GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GKG, verða í eldlínunni eftir sem áður.

Challenge de Espana er fyrsta mótið í Evrópu á þessu keppnistímabili Áskorendamótaraðarinnar en fyrstu sex mótin fóru fram í febrúar og mars í Suður-Afríku.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Haraldur Franklín, sagði í stuttu spjalli við Kylfing að völlurinn sé mjög flottur.

„Þetta er alveg tvískiptur völlur. Fyrri níu holurnar eru tiltölulega opnar fallegar holur sem liggja að ströndinni en seinni níu holurnar eru rosalega þröngar. Völlurinn er hannaður af Seve Ballesteros. Seve var oft í veseni af teig og segir sagan að hann hafi hannað seinni níu holurnar þannig að allir myndu spila eins og hann – í veseni af teig. Á seinni níu eru tré út um allt og mörg þeirra út á miðjum brautum. Þá er ekki mikið pláss á flötunum.“

Haraldur Franklín á æfingahring í vikunni. Ljósmynd: Aðsend

Hvernig er ástand vallarins á þessum árstíma?

„Hann er í góðu standi. Það spáir reyndar miklu hvassviðri svo þetta gæti orðið þolinmæðisverk. Maður þarf að halda boltanum í leik og fá nóg af pörum. Þannig sé ég a.m.k. uppskriftina af fyrstu hringjunum.“

Er ekki allt annað að vera búinn að fá félagsskap á mótaröðina?

„Jú, það hefur verið gaman að fá Gumma inn í þetta og svo er Jón Þór vinur minn á pokanum í þessu móti. Félagsskapurinn getur verið mikilvægur,“ segir Haraldur Franklín Magnús að lokum.

Guðmundur Ágúst var ofarlega á biðlista inn í mótið og komst sem síðasti maður inn.

„Ég fékk bara að vita það á mánudaginn og var kominn á svæðið í gær. Ég næ vonandi að taka æfingahring í dag en ef ekki þá hef ég svo sem spilað hér áður svo það yrði enginn krísa þannig lagað.“

Guðmundur Ágúst Kristjánsson á Limpopo Championship í vor.

Hvernig er tilfinningin fyrir mót?

„Ég er bara vel stemmdur. Ég hef verið að spila vel síðustu vikur,“ segir Guðmundur Ágúst að lokum.

Þeir Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst verða ræstir út á fyrsta hring með 10 mínútna millibili laust fyrir klukkan 13 á íslenskum tíma á morgun, fimmtudag. Þá eiga þeir rástíma á öðrum hring rétt fyrir klukkan átta að morgni föstudags.

Kylfingur fylgist vel með framgöngu þeirra félaga á mótinu.