Fréttir

„Stundum verða draumar að veruleika“
Henrik Stenson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 15. mars 2022 kl. 15:44

„Stundum verða draumar að veruleika“

Henrik Stenson útnefndur fyrirliði Ryder-bikarliðs Evrópu

Svíinn Henrik Stenson var í dag útnefndur fyrirliði Ryder-bikarliðs Evrópu, en Ryder-bikarinn fer fram í Róm á næsta ári. Stenson hefur fimm sinnum verið í liði Evrópu sem leikmaður og þar af þrisvar í sigurliði. Hann var einn af varafyrirliðum liðsins í keppninni, sem haldin var í Bandaríkjunum á síðasta ári.

Zach Johnson mun sem kunnugt er leiða lið Bandaríkjanna gegn liði Evrópu í Róm.

Margeir golfferð
Margeir golfferð

Stenson, sem er fyrsti Svíinn til að verða útnefndur fyrirliði Ryder-bikarliðs Evrópu, hefur harma að hefna þar sem lið Evrópu tapaði illa, 19-9. Það er stærsti ósigur Evrópu síðan Evrópa sameinaðist í keppninni gegn Bandaríkjunum árið 1979.

Hinn 45 ára gamli Svíi, hefur verið atvinnukylfingur síðan árið 1999. Hann hefur unnið 11 mót á Evrópumótaröðinni og 6 á PGA mótaröðinni. Þá hefur hann einu sinni orðið stigameistari til FedEx bikarsins, árið 2013. Hann á einn risatitil, á Opna mótinu árið 2016.

Stenson sagði við tilefnið að þegar hann hugsar til baka til þess tíma þegar hann var að hefja sinn atvinnumannaferil, hafi hann ekki séð í sínum villtustu draumum að einn daginn myndi hann feta í fótspor goðsagna á borð við Seve Ballesteros og verða fyrirliði Ryder-bikarliðs Evrópu. „En dagurinn í dag sannar að, stundum, verða draumar að veruleika.“

Stenson hefur átt góðu gengi að fagna sem leikmaður í liði Evrópu og vann m.a. alla sína þrjá leiki í Frakklandi árið 2018. Hann setti einnig niður sigurpútt liðs Evrópu í frumraun sinni í Ryder-bikarnum árið 2006.