Viðtal

„Viðurkenning fyrir íslenskt golf, GO og okkar starfsfólk
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 25. maí 2022 kl. 11:58

„Viðurkenning fyrir íslenskt golf, GO og okkar starfsfólk"

„Við munum nota tækifærið til að hvetja ungar stúlkur til golfiðkunar,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds, en Evrópumót stúlknalandsliða fer fram á Urriðavelli dagana 5.-9. júlí nk.

„Undirbúningur gengur vel og það er í sjálfu sér allt að verða klárt. Þetta gekk mjög vel síðast og við hlökkum til að taka á móti stúlkunum í ár. Það er ofboðslega gaman að fá efnilegustu kylfinga Evrópu hingað til okkar og við lofum frábærri skemmtun.“

Á mótinu etja kappi fremstu áhugakylfingar Evrópu, 18 ára og yngri. Evrópska golfsambandið (EGA) sér um framkvæmd mótsins í góðu samstarfi við Golfsamband Íslands (GSÍ) og auðvitað Golfklúbbinn Odd (GO). Þetta er í annað sinn sem þessir aðilar taka höndum saman um verkefni af þessari stærðargráðu en, eins og Þorvaldur vísar í, fór Evrópumót kvenna fram á Urriðavelli árið 2016.

EM stúlknalandsliða fór fyrst fram árið 1991. Fyrst um sinn á tveggja ára fresti en frá árinu 1999 hefur mótið farið fram árlega. Mótið á Urriðavelli verður það 27. í röðinni frá upphafi.

Lið Englands varð Evrópumeistari árið 2016. Ljósmynd: Golfklúbburinn Oddur

Það hlýtur að vera mikil viðurkenning fyrir klúbbinn og völlinn að EGA leiti aftur til GO.

„Jú, það er mikil viðurkenning fyrir íslenskt golf og það öfluga starf sem unnið hefur verið á Íslandi, að okkur sé falið verkefni á borð við þetta. Það er einnig mikil viðurkenning fyrir Urriðavöll og okkar starfsfólk sem hefur haldið gæðum vallarins á háu stigi í mörg ár. Við búum að góðri reynslu og þekkingu til að takast á við þetta skemmtilega og krefjandi verkefni.“

Bronte Law var fyrirliði enska liðsins 2016. Síðar var hún valin í lið Evrópu í Solheim-bikarnum. Ljósmynd: Golfklúbburinn Oddur

Hvað eigið þið von á mörgum hingað til lands í tengslum við mótið?

„Það má búast má við vel á annað hundrað kylfingum ásamt þjálfaraliðum og fylgdarliði frá 20 ríkjum í álfunni. Þannig þurfum við ansi marga sjálfboðaliða en sem betur fer erum við í Oddi mjög lánsöm með okkar félagsmenn. Félagsandinn kom berlega í ljós árið 2016 þegar fleiri tugir félagsmanna lögðu okkur lið. Ég er sannfærður um að þeir taki einnig með stolti á móti þessum frábæru kylfingum í sumar og muni aftur fylkja liði til að gera umgjörðina eins veglega og hægt er,” segir Þorvaldur.

Sjálfboðaliðar að störfum árið 2016

„Þá munum við nota tækifærið, í góðu samstarfi við GSÍ, til að hvetja ungar stúlkur til golfiðkunar. Núna annan í hvítasunnu, 6. júní nk. verðum við með kynningardag hér á svæðinu – Stelpugolf. Þá verður kynning á golfi fyrir stúlkur 6-18 ára milli 11 og 14. Boðið verður upp á SNAG-golf og pútt fyrir 6-11 ára og grunnatriði kennd stúlkum, 12 ára og eldri. PGA kennarar og PGA nemar munu sjá um kennsluna, að sjálfsögðu að kostnaðarlausu. Þá verður stúlknalandslið Íslands á svæðinu, öllum til hvatningar og þær munu sýna okkur hvernig á að leika golf.“

„Á sjálfan kvenréttindadaginn, sunnudaginn 19. júní nk. munum við standa fyrir laufléttu mæðgnamóti á Par 3 vellinum okkar, Ljúflingi. Um er að ræða skemmtimót þar sem mæður og dætur eða ömmur og ömmustelpur leika saman í liði með Texas Scramble fyrirkomulagi.“

„Með þessu viljum við leggja okkar að mörkum við að auka veg stúlkna í golfi á Íslandi. Golfklúbburinn Oddur hafði síðast þegar ég vissi hæsta hlutfall kvenna meðal félagsmanna golfklúbba á Íslandi eða um 43%, svo kvennastarf er okkur hugleikið,“ segir Þorvaldur.

Kylfingi lék forvitni á að vita hvað veldur þessum áhuga kvenna á starfinu í Urriðavatnsdölum.

„Já, það er fyrst og fremst kvennanefndin okkar sem hefur verið mjög öflug mjög lengi. Þær eru með púttmótaröð yfir vetrartímann og fjöldann allan af viðburðum yfir sumartímann. Við erum mjög heppin með okkar konur.“

Það ríkir góð stemning meðal kvennana í GO. Ljósmynd: Facebook/Golfklúbburinn Oddur

Fyrir utan kvennastarfið, er félagsstarfið öflugt hjá GO?

„Já, það er það. Mikið og gott starf og mikil samheldni. Nýlega stofnuðum við gönguhóp sem hefur verið vettvangur fyrir áhugasama félagsmenn og gesti til að hittast reglulega og ganga um svæðið og næsta nágrenni þegar golftímabilinu er lokið og fram að upphafi þess næsta. Svo auðvitað erum við ýmis skemmtileg innanfélagsmót eins og Liðakeppni GO og Holukeppni GO, svo einhver séu nefnd.“

Þorvaldur segir því miður langan biðlista eftir fullri félagsaðild eins og víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en enginn biðlisti er eftir svokallaðri Ljúflingsaðild.

„Ljúflingsaðild veitir fullt aðgengi að Ljúflingi en afslátt af flatargjöldum á Urriðavöll. Margir hafa nýtt sér þessa aðild, sumir hverjir á meðan þeir eru á biðlista eftir fullri félagsaðild en aðrir vilja eingöngu Ljúflingsaðildina. Það eru um 200 að jafnaði á biðlista og alla jafna tveggja ára bið.“

Frá fjölmennum vinnudegi á félagssvæði Odds. Ljósmynd: Facebook/Golfklúbburinn Oddur

Er áhersla lögð á barna- og unglingastarf í GO?

„Já, við leggjum áherslu á það, eins og aðrir klúbbar. Það hefur gætt ákveðins misskilnings að við séum eitthvað öðruvísi en aðrir klúbbar hvað það varðar vegna tengingar okkar við Oddfellowregluna en það er í sjálfu sér ekki svo. Þótt vallarsvæðið hér sé í eigu Oddfellowreglunnar erum við ekki klúbbur Oddfellowa í dag, þó vissulega séu margir Oddfellowar í klúbbnum. Þetta getur verið ruglingslegt fyrir fólk.“

Caption

„Við finnum fyrir auknum áhuga á okkar starfi með uppbyggingu í Urriðaholtshverfi. Við búum við ákveðið aðstöðuleysi þar sem engin æfingaaðstaða er á okkar svæði yfir vetrartímann. Það hefur verið í deiglunni í mörg ár hjá okkur að byggja upp vetraræfingaaðstöðu en okkur hefur enn ekki tekist að koma því verkefni af stað. Þannig er okkar barna- og unglingastarf minna í sniðum en víða annars staðar. Við erum í góðu samstarfi við GKG en okkar krakkar eru með æfingatíma yfir veturinn í íþróttamiðstöð þeirra. Í staðinn fá nágrannar okkar að nota glæsilegt æfingasvæðið hér á svæðinu, básana sem við köllum Lærling, en ekkert æfingasvæði er á þeirra félagssvæði í dag.“

Aðspurður segir Þorvaldur að markvisst hafi verið reynt að draga úr mótahaldi innan GO og að klúbburinn hafi í meira mæli reynt að færa sig í miðnæturmót.

„Félagsmenn vilja gott aðgengi að vellinum og því er mótahald kannski ekki eitthvað sem er sérlega vinsælt. Við horfum ekki á mótahald sem stóra tekjulind eins og margir klúbbar hafa kannski gert. Í dag höldum við 1-2 opin mót á ári.“

Þorvaldur segir að Urriðavöllur líti vel út. Hann hafi opnað 7. maí, sem er í fyrra fallinu en vorið var gott og lítið frost var í jörðu.

„Við reynum sífellt að bæta völlinn og umhverfi hans. Nýir stígar hafi verið gerðir á nokkrum brautum og gervigras lagt á aðra stíga. Við leggjum mikið upp úr því að völlurinn sé aðlaðandi og snyrtilegur.“

Urriðavöllur er sannkölluð náttúruperla. Ljósmynd: Golfklúbburinn Oddur

„Líkt og víða annars staðar var völlurinn þétt setinn í Covid en í dag er það sem betur fer svo að það er nokkuð þægilegt að fá rástíma. Takturinn er svipaður og annars staðar, það er hægt að bóka með nokkurra daga fyrirvara.Við bjóðum fólk hjartanlega velkomið hingað í Urriðavatnsdali og hlökkum til að sjá vonandi sem flesta í sumar. Þá viljum við hvetja kylfinga til að koma og fylgjast með stelpunum í júlí. Við lofum frábæru móti,“ segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds að lokum.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék með kvennalandsliði Íslands á EM 2016. Ljósmynd: Golfklúbburinn Oddur