Viðtal

„Ég er stoltur af liðinu og þær geta verið stoltar af eigin frammistöðu“
Íslenska kvennalandsliðið: Heiðar Davíð Bragason liðsstjóri, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, Saga Traustadóttir, Hulda Clara Gestsdóttir, Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir. Á myndina vantar Andreu Bergsdóttur sem leikur fyrir Hills Golfklúbbinn í Svíþjóð. Ljósmynd: GSÍ/Sigurður Elvar Þórólfsson
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 19. júlí 2022 kl. 07:26

„Ég er stoltur af liðinu og þær geta verið stoltar af eigin frammistöðu“

Heiðar Davíð Bragason, liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins, um Evrópumótið í Wales.

Það var mikið um að vera hjá landsliðskylfingunum okkar í júlí en Evrópumót landsliða fóru fram hér og þar um álfuna í mismunandi aldursflokkum. Evrópumót kvennalandsliða fór fram á Conwy vellinum í Wales. Þetta var í fyrsta sinn sem mótið fór fram á þessum velli.

Keppnisfyrirkomulag á EM er með þeim hætti að fyrstu tvo keppnisdagana er leikinn höggleikur þar sem fimm lægstu skorin hjá hverju liði telja. Liðunum er raðað upp í riðla eftir árangri í höggleiknum, þar sem átta efstu liðin leika í holukeppni í A-riðli um Evrópumeistartitilinn og önnur lið leika um sætin þar fyrir neðan. Í B-riðli er leikið um sæti 9.-16 og í C-riðli um sætin þar fyrir neðan. Íslenska liðið hafnaði í 15. sæti í keppni í höggleik og lék því í B-riðli holukeppninnar.

Í holukeppninni eru leiknar tvær umferðir á dag. Í fyrri umferðinni eru leiknir tveir fjórmenningsleikir (Foursome) þar sem tveir leikmenn leika gegn tveimur öðrum leikmönnum og hvort lið leikur einum bolta. Eftir hádegi eru leiknir fimm tvímenningsleikir, þar sem einn leikmaður leikur gegn öðrum leikmanni. Mótherjinn í 8-liða úrslitum var lið Hollands og sigruðu þær hollensku okkar konur nokkuð þægilega.

Íslenska kvennalandsliðið skipuðu þær Saga Traustadóttir úr GKG, Heiðrún Anna Hlynsdóttir úr GOS, Andrea Bergsdóttir úr GKG, Hulda Clara Gestsdóttir úr GKG, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir úr GR og Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr GR. Liðsstjóri var Heiðar Davíð Bragason. Andrea Bergsdóttir var sú eina sem náði í stig fyrir íslenska liðið gegn fjórum stigum hollenska liðsins.

Í annari umferð holukeppninnar lék Ísland gegn Tékklandi. Aftur tapaðist leikurinn en þær tékknesku tóku öll stigin ef undan er skilið jafntefli sem Heiðrún Anna Hlynsdóttir náði í tvímenningi. Í leik um 15. sæti mættu stelpurnar liði Finnlands í jöfnum og spennandi leik. Finnar sigruðu að lokum 3-2 en Heiðrún Anna og Andrea unnu sína leiki í tvímenningi.

Heiðar Davíð sagðist hafa verið afskaplega ánægður með frammistöðu íslenska liðsins.

„Stelpurnar léku 6100-6200 metra langan völl í tveggja til þriggja kylfu vindi svo aðstæður voru virkilega krefjandi. Hulda Clara meiddist á úlnlið á fyrsta degi og átti í erfiðleikum með að slá. Hún var því sett í fjórmenning til að þurfa að slá færri högg og þannig vernda úlnliðinn aðeins. Heiðrún Anna veiktist undir lok mótsins en hvorki hún né hinar stelpurnar létu það á sig fá. Leikurinn við Holland var erfiður en þær hollensku léku mjög vel. Leikirnir gegn Tékkum og Finnum hefðu vel getað fallið okkar megin en því miður fór það ekki svo þrátt fyrir að stelpurnar hafi leikið virkilega vel. Ég er stoltur af liðinu og þær geta verið stoltar af eigin frammistöðu. Þær eru eftir mótið orðnar mun betri í að slá með blendingi og 3 tré inn á flatir og geta heilt yfir tekið margt gott frá þessu móti,“ sagði Heiðar Davíð Bragason liðsstjóri íslenska kvennalandsliðsins á EM að lokum.

Andrea Bergsdóttir