Örninn22_bland
Örninn22_bland

Viðtal

„Við spilum inn á sumarflatir allt árið“
Kirkjubólsvöllur í Sandgerði
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 28. apríl 2022 kl. 14:12

„Við spilum inn á sumarflatir allt árið“

Lárus Óskarsson, formaður GSG, í stuttu spjalli.

Kirkjubólsvöllur í Sandgerði er opinn allan ársins hring þegar veður leyfir. Völlurinn er staðsettur milli Garðs og Sandgerðis og liggur niður við sjóinn á mjög sendnum jarðvegi.

„Völlurinn drenar sig fljótt og vel og snjó festir lítið. Við spilum inn á sumarflatir allt árið“, segir Lárus Óskarsson, formaður GSG en hann er einnig vallarstjóri á Kirkjubólsvelli.

GKG sumarhermar
GKG sumarhermar

Félagsstarf í klúbbnum er með miklum ágætum að sögn Lárusar.

„Við höldum hér t.a.m. kótilettukvöld og skötuveislu árlega. Þá er haldin Bændaglíma og lokahóf Meistaramótsins er eitthvað sem flesta meðlimi hlakkar til að sækja. Þá má ekki gleyma öldungahorninu en þar eru heimsmálin krufin hvert á fætur öðru. Þó skoðanir geti verið skiptar er andinn góður og allt rætt í mesta bróðerni.“

Mótahald er í nokkuð föstum skorðum í Sandgerði en klúbburinn heldur stigamótaröð sem samanstendur af sjö mótum.

„Auk stigamótaraðarinnar má nefna Bikarkeppnina okkar, Jónsmessumótið og Suðurnesjabæjarmótið auk Meistaramótsins. Þá er fjöldinn allur af vinnustaðamótum haldinn á Kirkjubólsvelli árlega.“

Barna- og unglingastarfið í Sandgerði er metnaðarfullt.

„Karen Sævarsdóttir, áttfaldur Íslandsmeistari og LPGA golfkennari, hefur séð um golfkennsluna hjá okkur og það verður engin breyting þar á. Karen er gríðarlega reynslumikill kylfingur sem hefur átt farsælan feril hér heima sem og reynt fyrir sér í atvinnumennsku. Hún hefur kennt golf á Íslandi í yfir áratug.“

Nokkur mót verða haldin í Sandgerði á vegum GSÍ í sumar.

„Við munum halda tvö barna- og unglingamót í maí og þá verður önnur deild Íslandsmóts golfklúbba í flokki eldri kylfinga haldið á Kirkjubólsvelli í ágúst.“

Ráðist var í uppsetningu á golfhermi af bestu gerð um síðustu áramót og golfbílar keyptir í samstarfi við Bílaleigu Akureyrar sem verða til útleigu á Kirkjubólsvelli.

Aðspurður um kvennastarfið segir Lárus að konum sé alltaf að fjölga í klúbbnum.

„Raunar fer klúbbmeðlimum ört fjölgandi og erum við að nálgast 250 meðlimi. Sumarið leggst vel í okkur í Sandgerði. Við erum með góðan golfskála þar sem boðið er upp á fyrirtaks veitingar og gott viðmót. Við horfum bjartsýn fram á gott golfsumar og bjóðum alla hjartanlega velkomna í klúbbinn og á Kirkjubólsvöll allan ársins hring“, segir Lárus Óskarsson, formaður Golfklúbbs Sandgerðis.

Lárus Óskarsson. Ljósmynd: Facebook