Fimmtudagur 29. janúar 2015 kl. 06:28

Tiger verður í nýrri gerð af Nike golfskóm í Phoenix

Það ríkir mikil eftirvænting í Phoenix þar sem Tiger Woods mun hefja keppni í dag á PGA mótaröðinni. Woods hefur ekki keppt síðan í desember en árið 2014 einkenndist af meiðslum hjá bandaríska kylfingnum sem missti af tveimur risamótum og var frá í rúmlega hálft ár. Nike fyrirtækið ætlar að nýta sviðsljósið sem Woods stendur í næstu daga og verður hann í nýrri gerð af golfskólm TW15 sem kosta um 33.000 kr. í Bandaríkjunum. Golfskórinn er með Nike Flyweave tækninni og sólinn er í ætt við Nike Free skóvörurnar sem hafa notið vinsælda. Skórinn er mjög léttur og sveigjanlegur.  

Woods hafði mikil áhrif þegar skórinn var hannaður, en hann krafðist þess að sólinn væri sveigjanlegur og með betra jafnvægi en áður. Það eru fjórir takkar í sólanum sem hægt er að skipta um.

Það er „vatnaþema“ í útlitinu á golfskónum þar sem vísað er í áhugamál Woods sem hefur gaman af því að kafa og sjósporti.