Laugardagur 31. janúar 2015 kl. 17:29

Rory með fjögurra högga forskot fyrir lokahringinn í Dubai

Rory McIlroy kann vel við sig í Dubai þar sem hann fagnaði sínum fyrsta sigri sem atvinnukylfingur árið 2009. Norður-Írinn er með fjögurra högga forskot fyrir lokahringinn á Omega meistaramótinu í Dubai en hann lék þriðja hringinn á 66 höggum.

Staðan á mótinu: 

McIlroy var með eitt högg í forskot þegar keppni var hálfnuð en hann fékk fimm fugla á fyrstu átta holunum á þriðja hringnum. Hann náði hinsvegar aðeins einum fugli á síðari 9 holunum. Hann er samtals á -20 en mótsmetið eftir 54 holur eiga þeir Stephen Gallacher (2013) og Thomas Björn (2001).

Daninn Morten Örum Madsen, sem lék á -9 í gær er annar á -16 eftir að hafa leikið á 66 höggum í dag þar sem hann fékk sex fugla. Englendingurinn Lee Westwood (69) er þriðji á -14, sex höggum á eftir McIlroy.

Stephen Gallacher hefur titil að verja á þessu móti en hann er í fjórða sæti ásamt Andy Sullivan, Danny Willett og Bernd Wiesberger.