Sunnudagur 24. júlí 2016 kl. 22:55

Pútterinn var sjóðheitur - segir Ólafía eftir þriðja titilinn

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir segir að pútterinn hafi verið sjóðheitur á lokadeginum en hún var 5 undir pari eftir 7 holur og var þá komin með þriggja högga forskot á Valdísi Þóru eftir að hafa verið höggi á eftir fyrir lokahringinn. „Það var frábært að innbyrða titilinn. Við lékum báðar mjög vel og það er gaman að vera á besta skorinu í mótinu þegar við tökum karlana inn í þetta líka,“ sagði Ólafía brosmild eftir þriðja titilinn.

Keppni þeirra tveggja var mjög skemmtilegt einvígi og Valdís átti högg fyrir lokadaginn. Á 3. braut tapaði hún tveimur höggum á meðan Ólafía fékk fugl og þá var sú síðarnefnda komin í tveggja högga forskot. Munurinn á þeim varð mestur 4 högg en varð minnstur tvö högg eftir fugl hjá Valdísi á 14. braut. Í lokin munaði tveimur höggum á þeim. Ólafía lék lokahringinn á 66 höggum og jafnaði vallarmet sem Valdís setti á þriðja degi. Valdís lék lokahringinn á tveimur undir pari og -9 í heildina og einhvern tíma hefði það dugað fyrir sigri en svo var ekki núna.

Kylfingur var á fleygiferð með kameruna á lokahringnum og festi nokkur myndbrot og Páll Ketilsson ræddi síðan við Ólafíu Íslandsmeistara.