Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 8. ágúst 2022 kl. 12:55

Perla Sól í viðtali: Stefnir á háskólagolf og atvinnumennsku

Nýkrýndur Íslandsmeistari kvenna í golfi, hin 15 ára Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur stefnir hátt í íþróttinni. „Háskólagolf og atvinnumennska er á dagskránni,“ segir hún m.a. í skemmtilegu viðtali eftir að hafa tekið við Íslandsbikarnum í Eyjum á sunnudag.

Perla Sól var með forystu fyrstu þrjá dagana og hélt henni enn eftir 4 holur á fjórða degi en þá var mótinu frestað og síðar var fjórðu umferðinni aflýst. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, þrefaldur Íslandsmeistari og atvinnukylfingur sótti að Perlu á öðrum og þriðja keppnisdegi en var höggi á eftir henni. Perla náði að bjarga pari á 18. holu á þriðja keppnisdegi og það reyndist dýrmætt þegar veðurguðirnir tóku völdin á fjórða degi.

Perla Sól er fædd árið 2006 og er hún næst yngsti kylfingurinn sem fagnar Íslandsmeistaratitli í kvennaflokki. Perla Sól verður 16 ára í september en Ragnhildur Sigurðardóttir var nýorðinn 15 ára þegar hún varð Íslandsmeistari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 1985. Þetta er í 23. sinn sem GR-ingur fagnar Íslandsmeistaratitli í kvennaflokki.

Lokastaðan í kvennaflokki:

1. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR 209 högg (70-70-69) (-1)
2. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR 210 högg (74-69-67) (par)
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK 219 högg (76-71-72)(+9)
4. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR 221 högg (73-75-73) (+11)
5.-6. Saga Traustadóttir, GKG 222 högg (78-76-68) (+12)
5.-6. Berglind Björnsdóttir, GR 146 högg (75-71-76) (+12)

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR varð önnur.