Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 17. nóvember 2019 kl. 16:36

Myndband: Guðmundur fékk fugl úr erfiðri stöðu

Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR lék í dag þriðja hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla á 3 höggum yfir pari. Guðmundur er jafn í 82. sæti eftir daginn, einu höggi frá niðurskurðarlínunni en skorið verður niður eftir morgundaginn.

Guðmundur fékk einungis einn fugl í dag en pútterinn var kaldur hjá Íslandsmeistaranum. Fuglinn sem hann fékk var hins vegar frábær en hann kom á 7. holu Hills vallarins sem var 16. hola dagsins hjá honum.

Eins og sjá má í myndbandinu sló Guðmundur frábært upphafshögg á umræddri holu og ætlaði sér inn á flöt í tveimur höggum en 7. holan er par 5 hola.

Innáhöggið fór töluvert til hægri og þurfti Guðmundur því að taka varabolta. Sem betur fer fann hann boltann og náði á einhvern ótrúlegan hátt að koma honum nokkra metra frá í vippinu. Kylfuberi Guðmundar, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, sagði við blaðamann Kylfings að hún hefði einfaldlega litið í burtu þegar hún sá hvað Guðmundur ætlaði sér að gera.

Púttið fór svo í miðja holu og gat Guðmundur ekki annað en brosað yfir fyrsta fugli dagsins.

Hér er hægt að sjá stöðuna í lokaúrtökumótinu.