Myndband: Andri nokkuð sáttur með byrjunina
Andri Þór Björnsson lék fyrsta hringinn á lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð karla á parinu og er jafn í 80. sæti af 156 keppendum.
Hringurinn var nokkuð skrautlegur hjá Andra en eftir rólega byrjun fékk hann tvöfaldan skolla á 8. holu og skolla á 9. holu.
Því næst fékk hann par á 10. holu áður en hann vann fjögur högg til baka á næstu þremur holum. Á þeim kafla sló hann tæplega 100 metra höggi beint í holu á 12. holu og fékk örn.
Andri Þór ræddi við blaðamann Kylfings um fyrsta hringinn og Lakes völlinn sem hann spilar á morgun.
Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.
Í dag léku íslensku strákarnir á Hills vellinum á Lumine svæðinu en á morgun fara þeir á Lakes völlinn. Eftir fjóra hringi verður skorið niður í mótinu og halda þá um 70 kylfingar áfram. Til þess að fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þurfa strákarnir okkar að enda í einu af 25 efstu sætunum að sex hringjum loknum.