Mánudagur 19. janúar 2015 kl. 20:33

Myndatökumaður sló framtönn úr Tiger Woods á Ítalíu

Það hefur blásið aðeins á móti hjá Tiger Woods á undanförnum mánuðum og í dag fékk hann enn eitt verkefnið til þess að glíma við. Woods varð fyrir því óláni að missa framtönn þegar myndatökumaður rakst harkalega í hann í ítalska bænum Cortina d'Ampezzo á Ítalíu

Woods varð vitni að sögulegri stund hjá unnustu sinni Lindsey Vonn en hún fagnaði þar sínum 63. sigri á heimsbikarmótaröð kvenna í alpagreinum. Mikið gekk á við verðlaunaafhendinguna og ekki síst þar sem að Woods var þar staddur. Myndatökumenn og ljósmyndarar kepptust um að ná þessu augnabliki og mikil ásókn var í að komast að verðlaunapallinum.  

„Myndatökumaður sem var með myndavél á öxlinni ýtti sér í gegnum þvöguna og að sviðinu þar sem verðlaunaafhendingin fór fram. Hann snéri sér við á leiðini og myndvélin skall á munninum á Tiger Woods. Ein tönn datt úr Woods í þessu atviki,“ skrifar Mark Steinberg umboðsmaður Woods í tilkynningu sem hann sendi á fjölmiðla vegna atviksins.

Woods reyndi að láta sem minnst á þessu bera en hann var með trefil, sólgleraugu og hatt og reyndi að láta lítið fara fyrir sér.  Woods mun taka þátt á sínu fyrsta atvinnumóti í næstu viku í Phoenix og segir Steinberg að ekki sé vitað hvenær hægt verði að laga áverkann hjá Woods.