Jason Dufner borðar ekki glúten og er eins og nýr maður
Jason Dufner hefur „rifið í lóðin“ á undanförnum mánuðum og breytt um mataræði. Útkoman leyndi sér ekki í gær þegar hann mætti til leiks á Humana meistaramótinu á PGA mótaröðinni. Bandaríski kylfingurinn hefur misst um 10 kg. og er mun sterkari en áður.
„Þetta var frekar einfalt. Ég varð að gera þetta til þess að geta haldið áfram að leika golf sem atvinnumaður. Dufner er einn af 14 kylfingum á þessu móti sem eru á meðal 50 efstu á heimslistanum. Dufner lék síðast á þessu móti árið 2012 og endaði í 12. sæti. Hann náði ekki að sigra á PGA móti á síðasta ári sem einkenndist af meiðslum í hálslið hjá Dufner.
„Mér hefur ekki liðið vel undanfarin tvö til þrjú ár. Á síðasta ári gat ég ekki keppt eins og áður. Ég missti af úrslitakeppninni, ég gat ekki varið PGA meistaratitilinn og líklega komst ég ekki í Ryderliðið af þessum orsökum,“ sagði Dufner sem hætti eftir 10 holur á PGA meistaramótinu þar sem hann hafði titil að verja. Hann keppti á ný 11 vikum síðar á móti í Ástralíu.
Dufner borðar ekki glúten og það hefur breytt miklu hjá honum. Hann segir að bólgur í líkama hans séu nú horfnar. Líkami hans er ekki stífur og aumur líkt og áður. „Það er talið að bólgur og stífir vöðvar hafi ýtt á taug í hálsinum á mér sem varð til þess að ég gat ekki spilað golf. Mér líður mun betur núna og er bjartsýnn,“ sagði Dufner.