Mánudagur 15. ágúst 2016 kl. 13:00

Haukadalsvöllur fagnar tíu ára afmæli - frúin fer mikinn á sláttuvélunum

Evrópumeistaramótið í knattspyrnu hafði áhrif á aðsókn á Haukadalsvöll við Geysi í sumar. Íslenskir kylfingar voru minna á ferðinni en útlendingar björguðu málum og skiluðu drjúgum skildingi í kassann þegar þeir mættu á „Geysir golf club“. Einar Tryggvason og fjölskylda standa vaktina en húsbóndinn er þó bara hálfdrættingur á við frúna, hana Ágústu Þórisdóttur, því hún sér um vallarumhirðuna sem og afgreiðslu í golfskála en bóndinn er helming ársins við vinnu í Noregi.

Karlinn hefur um nokkurt skeið unnið hjá frændum okkar í Noregi við viðhald á göngum en þau eru mörg þar í landi. Þá má ekki gleyma syninum Karli Jóhanni sem er að verða betri kylfingur en pabbinn og stráksi aðstoðar líka við störf á Haukadalsvelli.

Það er sjaldgæft að sjá kvenfólk í golfvallarumhirðustöorfum og því er gaman sjá þegar frúin þeysist um á sláttuvélunum á Haukadalsvelli. Þetta er líka mjög skemmtilegur golfvöllur í mögnuðu umhverfi vinsælasta ferðamannastaðar á Íslandi. Um það eru nær allir sammála.

Völlurinn opnaði í júlí 2006 og fagnar því áratugsafmæli á þessu ári. Framkvæmdir við hann hófust árið 2003. Völlurinn vakti strax mikla athygli fyrir mikla sérstöðu og fegurð en hann er staðsettur við hverasvæðið í Haukadal og stundum má sjá Strokk og Geysi blása á meðan leik stendur. Völlurinn er 9 holur og ber hver hola nafn einhvers af þeim hverum sem finnast á hverasvæðinu. Tvær ár, Beiná og Almenningsá, koma við sögu á vellinum á flestum brautum og setja óneitanlega fallegan svip á flottan golfvöll. Fyrstu fimm brautirnar og sú níunda eru allar frábærar, 6., 7. og 8. eru góðar brautir en eru ekki með sömu „wow“ áhrif eins og hinar.  
Það er mjög gott framtak að halda úti svona golfvelli á Íslandi, velli sem er sannarlega einstakur og allir ættu að heimsækja.

Við ræddum við Einar um ganga mála á Haukadalsvelli.