Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 10. ágúst 2020 kl. 17:03

Guðrún Brá ánægð með höggið á lokaholunni og þriðja titilinn

„Ég vissi að ég þurfti að sækja á síðustu 9 holunum og gerði það. Það gerðist mikið þegar ég vann 3 högg á Ragnhildi á 14. og 15. holu og svo hitti ég fullkomið högg á 72. holu sem tryggði mér umspil. Þar gerði ég færri mistök og ég viðurkenni alveg að það var þægileg tilfinning að eiga tvö högg þegar ein hola var eftir,“ segir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2020. Þetta var þriðji Íslandsmeistaratitill Guðrúnar.

Hún vonast til að fara út að keppa á Evrópumótaröðinni í lok mánaðarins en það er þó ekki öruggt. Guðrún er afar sátt með að vera komin með keppnisrétt þar. „Það er geggjað að vera komin inn á mótaröðina og ég hlakka til að sýna mig þar.

Ég æfði vel í vor á veirutímum, við höfum keppt mikið í sumar og það skilaði sér vel í Íslandsmótinu,“ segir Guðrún Brá m.a. í viðtali við Pál Ketilsson eftir sigurinn í Mosfellsbæ.