Þriðjudagur 10. febrúar 2015 kl. 00:02

Goydos á sigurbraut á mótaröð eldri kylfinga á PGA

Paul Goydos fagnaði sigri á Champions mótaröð eldri kylfinga á PGA mótaröðinni um helgina. Þetta er í annað sinn sem bandaríski kylfingurinn sigrar á þessari mótaröð. Hann lék lokahringinn á 69 höggum eða -3 og var hann einu höggi betri en Gene Sauer. Goydos sigraði á tveimur PGA mótum á ferlinum í 507 tilraunum en hann er með mun betri árangur á +50 mótaröðinni – þar sem hann hefur aðeins tekið þátt á 12 mótum en sigrað tvívegis.

Goydos lék samtals á 12 höggum undir pari og fékk um 30 milljónir kr. í verðlaunafé fyrir 54 holur.

Sauers hefur endað fjórum sinnum í öðru sæti á þessari mótaröð og þar á meðal tapaði hann í bráðabana um sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu þar sem Colin Montgomerie hafði betur.

Fred Funk deildi þriðja sætinu með John Huston.