GolfTV: Toms átti besta höggið á Players
Players Championship mótið bauð upp á glæsileg tilþrif eins og við var að búast og hefur PGA-mótaröðin valið fimm bestu högg helgarinnar. Bæði Kenny Perry og Jason Day komast á listann í þessari viku fyrir frábæra erni eftir að hafa slegið niður af löngu færi.
Fimmta besta högg helgarinnar átti Phil Mickelson en hann fór næstum því holu í höggi á hinni frægu 17. holu á TPC Sawgrass vellinum. Teighögg hans með fleygjárni lenti steinsnar frá holunni, skoppaði fram yfir holuna en spann tilbaka og rétt framhjá holunni. Mickelson var byrjaður að fagna ásnum er boltinn daðraði við holuna en fór ekki niður.
K.J. Choi á fjórða besta högg helgarinnar að mati PGA-mótaraðarinnar þegar hann setti niður langt pútt fyrir erni á 11. holu á öðrum hring. Jason Day er í þriðja sætinu eftir örn sem hann fékk fyrir að slá niður öðru höggi sínu á 14. holu af um 165 metra færi. Höggið var fullkomið og skoppaði frá hægri til vinstri beint í holuna.
Kenny Perry sýndi flotta hluti úr öðru höggi sínu á 6. holu á lokahringnum og fékk örn þegar hann sló niður af um 130 metra færi. Líkt og hjá Day þá skoppaði boltinn beint í holuna eftir að hafa lent á flötinni. Glæsilegt högg hjá hinum flinka Perry.
Högg helgarinnar, að mati PGA-mótaraðarinnar, á David Toms fyrir annað högg sitt á 18. holu á lokahringnum. Hann varð fyrir því óláni að boltinn lá í illa á brautinni en náði engu að síður afar góðri snertingu við boltann og sló boltanum um sex metra frá holu. Toms setti svo niður púttið fyrir fugli og tryggði sér bráðabana gegn K.J. Choi þar sem sá síðarnefndi sigraði.
David Toms tapaði í bráðabana við K.J. Choi um sigurinn á Players.