GolfTV: Rory vippar í þvottavél 10 ára gamall
Rory McIlroy er heitasti kylfingur heimsins í dag eftir glæstan sigur á Opna bandaríska meistaramótinu. Hann á foreldrum sínum mikið að þakka en þau fórnuðu miklu til að hann gæti fengið að æfa við góðar aðstæður í Holuwood klúbbnum í Norður-Írlandi þar sem hann óx úr grasi. Faðir hans Gerry var t.d. í þremur vinnum samtímis til að geta framfleytt draumi sonar síns um að verða atvinnumaður. Það hefur heldur betur borgað sig.
Þegar Rory McIlroy var tíu ára gamall vann hann Heimsmeistaramót barna 10 ára og yngri á Doral vellinum í Flórída. Hann fékk í kjölfarið nokkra athygli fjölmiðla og kom meðal annars fram í The Kelly Show í janúar árið 1999. Hinn 10 ára gamli Rory mætti með fleygjárn að vopni og vippaði í þvottavél í sjónvarpsal líkt og hann hafði æft heima hjá sér.
Hann var spurður hvort hann vildi verða atvinnumaður og svarið hjá Rory var einfalt: „Já.“ Það hefur heldur betur ræst úr þessum frábæra Norður-Íra.