GolfTV: Meiddur Hossler púttaði upp úr glompu í undanúrslitum NCAA
Á þriðjudaginn lék háskólalið frá Texas gegn USC í undanúrslitum NCAA í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Meðal kylfinga frá háskólaliði Texas er Bandaríkjamaðurinn Beau Hossler.
Útlitið var ekki gott fyrir kappann þegar hann meiddist illa í öxl á 15. holunni í undanúrslitunum á þriðjudaginn. Einhvern veginn náði hann þó að vippa ofan í á 16. holunni og kom sér vandræðalaust í gegnum lokaholurnar.
Á 18. holu var Hossler orðið það illt í öxlinni að hann treysti sér ekki til að slá högg úr glompu við flötina. Hossler greip þá á það ráð að pútta upp úr glompunni. Eins og í ævintýri tókst það að sjálfsögðu vel og setti hann púttið ofan í og tryggði Texas sigur og sæti í úrslitum.