Mánudagur 29. desember 2014 kl. 11:43

GolfTV: Áhrifarík frásögn af flugslysinu sem Payne Stewart lést í

Bandaríski kylfingurinn Payne Stewart var á hátindi ferilsins þegar hann lést í flugslysi þann 25. okt. árið 1999. Stewart var í einkaþotu sem flaug frá Orlando í Flórída og var ferðinni heitið til Dallas í Texas. Eftir að vélin hafði náð 39.000 fetum og flugstjórinn hafði staðfest þá flughæð við flugumsjón náðist ekkert samband við vélina á ný. Vélin lækkaði flugið smátt og smátt – og ekkert samband náðist við flugmennina en fimm manns voru um borð í vélinni. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá viðtal við bónda sem varð vitni að því þegar vélin brotlendi á akri í Suður-Dakóta tæplega fjórum tímum eftir að vélin fór í loftið í Orlando.

Talið er að loftþrýstingurinn hafi fallið inn í vélinni  með þeim afleiðingum að allir sem voru um borð misstu meðvitund. Herflugvélar voru sendar að vélinni á meðan hún flaug stjórnlaus þvert yfir Bandaríkin en ekkert var hægt að gera til þess að bjarga þeim sem voru í vélinni.

William Payne Stewart var 42 ára gamall þegar hann lést en hann lét eftir sig eiginkonu og tvö börn. Hann sigraði á 25 atvinnumótum á ferlinum, þar af 11 PGA mótum. Hann sigraði þrívegis á risamóti, þar af tvívegis á Opna bandaríska meistaramótinu 1991 og 1999. Hann sigraði á PGA meistaramótinu árið 1989 og tvívegs varð hann annar á Opna breska 1985 og 1990.