Golfþáttur Sjónvarps Kylfings kominn í loftið
- sýndur á ÍNN og í HD á kylfingur.is.
Fyrsti golfþáttur sumarsins hjá Sjónvarpi Kylfings.is er kominn í loftið. Hægt er að horfa á þáttinn hér á kylfingur.is en hann er einnig sýndur kl. 21.30 á ÍNN í kvöld, 17. júní.
Við hefjum leikinn í fyrsta þættinum á Strandarvelli á Hellu, skoðum völlinn og sögu hans og ræðum við hjónin Óskar Pálsson og Katrínu Aðalbjörnsdóttur, sem eru allt í öllu á Strönd. Í nágrenninu er knattspyrnukappinn fyrrverandi, Eyjamaðurinn Hermann Hreiðarsson búinn að byggja glæsilegt hótel. Nú er golfferlillinn að hefjast hjá þessum hressa kappa. Við förum í golf með honum og Strandarhjónunum og skoðum í leiðinni nýja hótelið, Stracta hotel.
Við rifjum upp Landsmót í golfi 1991 með Úlfari Jónssyni og skoðum gamlar myndir frá mótinu en þetta var næst síðasti sigur kappans af sex á Íslandsmótinu í höggleik.
Við förum á vippæfingu með einum af eldri kylfingum landsins og fáum svo leiðsögn í vippunum frá áttföldum íslandsmeistara.
Hægt er að skoða þáttinn í HD gæðum hér á síðunni. Á ÍNN er þátturinn endursýndur á tveggja tíma fresti næsta sólarhringinn og svo aftur um helgina.
Njótið vel og gleðilegt golfsumar!