Geggjað golf í Grikklandi
Grikkland hefur ekki verið ofarlega sem golfáfangastaður kylfinga á Íslandi enda eru miklu færri golfvellir þar en í landi elds og ísa. Við Navarino flóann á suðvesturströnd Grikklands er golfsvæði sem opnaði með tveimur frábærum golfvöllum árið 2010 og 2011. Síðan hafa bæst við tveir vellir til viðbótar. Ferðaskrifstofan Eaglegolfferðir býður nú ferðir til Costa Navarino.
Svæðið hefur vakið mikla athygli á síðustu árum og heimsóknum kylfinga víðs vegar að úr Evrópu fjölgað mikið. Skal engan undra. Costa Navarino golfsvæðið er eitt það magnaðasta í Evrópu og líklega þó víðar væri leitað. Á því eru fjórir frábærir golfvellir - hannaðir af vel þekktum stórkylfingum og arkitektum. Bernhard Langer, þýski risameistarinn og einn sigursælasti kylfingur sögunnar hannaði fyrsta völlinn sem opnaði árið 2010 og heitir The Dunes. Ári síðar opnaði Bay völlurinn og hann er hannaður af einum þekktasta golfarkitekt heims Robert Trent Jones II. Síðan hafa bæst við tveir vellir sem hafa opnað á síðustu árum, The Olympic og The Hills. Hönnuður þeirra valla en enginn annar en Spánverjinn Jose Maria Olazabahl. Klúbbhúsið við Dunes völlinn er stórt og glæsilegt, með besta veitingastað svæðisins, golfverslun, bari, frábæran morgunverðarstað og þá eru fleiri veitingastaðir rétt við. Flott klúbbhús eru einnig við hina vellina þar sem mikið er lagt upp úr góðum veitingum sem hægt er að njóta í glæsilegu útsýni.
Magnaðir golfvellir
Það er erfitt að gera upp á milli vallanna, þeir eru allir magnaðir. Fjölbreyttar brautir, flott skógi vaxið landslag og útsýni út á sjóinn og til fjalla. Glompur leika stórt hlutverk og það er erfitt að fara í gegnum 18 holu hring án þess að fara einhvern tíma í sandinn. Margir teigar eru á öllum brautum sem gerir leikinn aðeins auðveldari fyrir háforgjafar kylfinga. Flatirnar eru lang flestar stórar með miklu landslagi sem og svæðið næst þeim. Ef boltinn fer ekki vel inn á flöt eftir innáhögg er hætta á að hann renni út af henni og þá oft í glompu. Flatirnar eru frábærar og gefa manni bakspuna fyrir gott innáhögg. Mikið landslag er líka í brautum.
Það er mjög erfitt að gera upp á milli vallanna, Dunes er þó að flestra mati erfiðastur en allir krefja þeir þó kylfinginn um að vera vel á boltanum. Brautirnar eru þó ágætlega víðar en fari bolti út í kargann getur verkefnið verið erfitt eða kallar á vítishögg, ef boltinn finnst. Á mjög mörgum brautum á maður til að gleyma sér með símann eða myndavélina uppi. Útsýnið og umhverfið er ægifagurt hvert sem litið er.
Glæsileg hótel
Á Costa Navarino eru fjögur hótel, Westin og Romanos, W resort og mandarín oríental, allt hágæða hótel. Íslenskir kylfingar kannast við Westin og Romanos. W hótelið opnaði í ágúst 2022 og Mandarín stuttu síðar.
Í byrjun var Costa navarino svokallað golfrísort en er nú með fjórum hótelum og fjórum golfvöllum orðið að golf áfangastað. Að sögn Davids Ashington, framkvæmdastjóra hjá Costa navarino var stefnan strax verið sú að hafa það í miklum gæðum og fjölbreytni. Hluti af þeirri stefnu var að fá fleiri golfarkitekta að hönnun vallanna og bjóða upp á mikla þjónustu.
Dunes völlurinn er alveg við Westin og Romanos en W hótelið og Mandarín Óríental eru við Bay völlinn en hann er í uppáhaldi hjá mörgum enda útsýnið geggjað og nálægð við sjóinn. Um 15 mínúta akstur er með rútu frá hótelunum á hina þrjá vellina. Kylfingur.is gisti á Romanos en þar eru aðstæður í hæsta gæðaflokki á öllum sviðum. Þjónustan frábær og úrval veitingastaða og kaffihús á svæðinu. Þá er önnur þjónusta í boði eins og apótek og nokkrar verslanir. Þeir sem vilja fara í sólbað eru á góðum stað. Veðrið er nær alltaf mjög gott og sólríkt. Hægt er að leggjast á bekk við sundlaugarbakkana eða fara á ströndina sem er rétt hjá. Maturinn á veitingastöðunum er mjög góður en svo er mjög gaman að heimsækja litla strandbæi í nágrenninu, þar er skemmtilegt að snæða góðan mat alveg við sjóinn og heilsa upp á heimamenn. Fyrir þá sem vilja hvíla sig frá golfi er ýmisleg afþreying í boði.
Grískur skipakóngur í golfi
En hver átti hugmyndina að Costa navarino? Grískur skipakóngur og einn auðugasti maður Grikklands, Vassilis Constanta-kopoulos, hafði kynnst golfíþróttinni og sá mikil tækifæri í að nýta betur þetta mikla og fallega landssvæði við Navarino flóann þar sem á árum áður voru nær eingöngu ræktaðar ólífur, til að laða að kylfinga og styrkja ferðamannaiðnaðinn á svæðinu. Í dag hafa um eitt þúsund manns atvinnu á svæðinu sem hægt er að tengja beint við golfsvæðið Costa Navarino.
Eaglegolfferðir bjóða upp á ferðir til Costa navariono - auk fleiri golfáfangastaða og er hægt að sjá nánar um ferðir á eaglegolf.is
Íslenski hópurinn sem fór til Costa Navarino haustið 2023.