Cheyenne Woods lofar Ólafíu í hástert
- segir markmið sitt að sigra á LPGA móti
Cheyenne Woods var skólafélagi Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur í Bandaríkjunum og þær voru saman í ráshópi fyrstu tvo dagana á PureSilk mótinu á LPGA mótaröðinni. Woods er á sínu þriðja ári á LPGA mótaröðinni og hún er jú frænka Tigers Woods.
Cheyenne er þremur höggum á eftir Ólafíu eftir 36 holur, lék mjög vel en var ekki eins beitt á flötunum. Hún segir að Ólafía sé frábær stelpa og góður kylfingur og það hafi verið skemmtilegt að þær hafi verið saman í ráshópi í mótinu. Hún segir að hún hafi byrjað í íþróttinni út af Tiger og hann hafi verið henni hvatning til að komast í fremstu röð. Markmiðið hjá henni sé að sigra á LPGA móti og hún hafi trú á því að það muni gerast innan tíðar. Páll Ketilsson ræddi við Cheyenne á Bahamas.
Woods á teig á Bahamas. gsimynd/seth.