Casey fór holu í höggi - Kylfusveininn hélt að hann fengi bílinn
Englendingurinn Paul Casey fór holu í höggi á lokahringnum á Cadillac Championship mótinu sem fram fer í Flórída. Casey náði draumahögginu á 15. holu við fögnuð áhorfenda en enginn fagnaði þó eins vel og kylfusveinn Casey, Skotinn Craig Connolly.
Forsaga málsins var sú að Casey gerði samning við Connolly að sá síðarnefndi fengi 50% af þeim verðlaunum sem hann fengi fyrir að fara holu í höggi. Glæsileg Cadillac bifreið er við 15. teiginn og hélt Connolly að Casey hefði unnið sér inn nýja bifreið, sem hann ætti nú 50% í, með draumahögginu.
Því miður fyrir þá félaga þá var enginn bíll í verðlaun fyrir holu í höggi á þessari holu heldur á þeirri þrettándu. Connolly var því skiljanlega nokkuð súr þegar þessi tíðindi bárust skömmu síðar. Hér að ofan má sjá þessa skemmtilegu uppákomu í dag.
Þess má geta að Connolly var áður á pokanum hjá Martin Kaymer og unnu þeir saman PGA Meistaramótið árið 2010.