Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 6. ágúst 2020 kl. 18:08

Aðstoðarmanneskja með hverjum ráshópi með hanska og spritt

Vegna Covid-19 eru kylfingar á Íslandsmótinu í höggleik ekki með kylfusveina en ein aðstoðarmanneskja fylgir þó hverjum ráshópi í mótinu. Hlutverk hennar er að taka stöngina úr holu, lyfta boltunum úr holu og rétta keppendum og spritta svo heilan helling. „Svo má ekki gleyma því að við setjum upp nýja hanska fyrir hverja flöt,“ sagði ein úr hópi aðstoðarfólksins við kylfing.is eftir fyrsta hringinn. Ein aðstoðarmanneskjan fór alla leið og sprittaði golfbolta keppenda. Það þótti skondið.

Golfklúbbur Mosfellsbæjar auglýsti eftir aðstoðarfólki í þetta hlutverk og fékk frábær viðbrögð frá eigin félögum og einnig um fimmtíu manns úr öðrum klúbbum sem vildu koma og hjálpa til á stærsta móti ársins.

Það var svolítið sérstakt og oft skemmtilegt að sjá aðstoðarfólkið á flötunum. Kylfingar voru oft að á leiðinni að taka upp boltann þegar hann fór í holu en nú eiga þeir ekki að gera það.

Aðstæður á Hlíðavelli eru mjög góðar og völlurinn er líka góður. Það er ekki áhorfendabann en fólk hefur heldur ekki verið hvatt til að mæta, allt til að passa eins vel og hægt er upp á kröfur vegna heimsfaraldurs.

Meðfylgjandi eru myndir og myndskeið af Covid-19 aðstoðarfólkinu á Íslandsmótinu að störfum á mótinu. Neðar í fréttinni má líka sjá myndasafn frá fyrsta keppnisdegi.