Kylfukast

Vetrargolf á sumarflatir
Þriðjudagur 23. febrúar 2010 kl. 22:45

Vetrargolf á sumarflatir

 Ég bara get ekki orða bundist þegar umræður spretta upp um hvort það sé skynsamlegt eður ei að leika inn á "sumarflatir" allan ársins hring. Tilefni þessara vangaveltna er að bæði Golfklúbbur Suðurnesja og Golfklúbbur Sandgerðis hafa boðið kylfingum uppá að leika inn á "sumarflatir" í allan vetur.  Þetta er s.s. ekkert nýmæli á Íslandi, þvi leikið hefur verið á sumarflötum á Strandarvelli á Hellu á veturna í þó nokkur ár án þess að sýnt hafi verið framá skaðleg áhrif þess á flatir vallarins.  Í Vestmannaeyjum gera menn einungis greinarmun á sumri og vetri með því að loka seinni 9 holunum á veturna.  Flatirnar þar heita bara flatir og á þær er leikið hvað svo sem mánuðurinn heitir.  

En þá er það spurningin um skynsemina. Hér á kylfingi.is er vitnað  í vallarstjórann á Korpúlfsstöðum þar sem hann útskýrir fyrir sínu fólki að ekki sé skynsamlegt að opna inn á sumarflatirnar þrátt fyrir veðurblíðu og segir svo: „Það er margt sem, við sem sjáum um viðhald golfvalla, þurfum að hafa í huga, við viljum jú öll að golfvöllurinn opni við sem bestar aðstæður að vori og verði svo góður í allt sumar og fram eftir hausti.“  Það er því vonandi að GR-ingar fái að leika Korpuna „fram eftir hausti“ á þessu ári, því ég man ekki betur en vellinum hafi verið lokað þann 1. október síðastliðinn, þrátt fyrir einmuna haustblíðu. 

Golfklúbbur Suðurnesja tók annan pól í hæðina og hélt haustmótaröð í október síðastliðnum og fram í nóvember.  Fullt var í öll mótin og GS náði í ríflega eina milljón í mótatekjur.  Eitt febrúarmót til viðbótar gefur svo um 300.000 kr. í kassann til viðbótar.  Er skynsemi í því?  Svarið að mínu mati er mjög einfalt, já.  1,3 milljónir eru ekki tíndar uppúr götunni.  

Taka þarf tillit til þess að yfir hásumarið eru leiknir hringir á Korpunni nær tvöfalt fleiri en í Leirunni, þannig að vera skynsamur á Korpunni er kannski ekki það sama og vera skynsamur í Leirunni.  Á báðum stöðum eru menn líklega mjög skynsamir.  

Það eru engar rannsóknir til sem sýna það að vetrargolf á sumarflatirnar á Hellu, í Vestmannaeyjum, Leirunni eða annars staðar hafi slæm áhrif á ástand flatanna yfir sumartímann.  Kannski meira segja hefur vetrarspilið bara jákvæð áhrif, þar sem vetrarumferðin gæti m.a. drepið mosa sem annars myndaðist í flötunum. Þjöppun jarðvegs í yfirborði flatanna er ekki endilega vandamál sem verður til yfir vetrartímann, því að þegar vatn frýs, þá þenst það út og ætti um leið að losa um þjöppun í jarðvegi, sem aftur ætti að þýða það að vorgötun á golfvelli væri hinn mesti óþarfi.  Enda óþolandi. Um þetta má allt deila. Metnaðarfullir vallarstjórar vilja hafa vellina sína sem besta.  Bestu vellirnir eru þeir sem minnst eru leiknir, því leikmaðurinn sjálfur er mesti skemmdarvargurinn á vellinum.  Ekki vegna þess að hann gengur illa um, heldur bara útaf því hann notar völlinn.  Hagsmunir vallarstjóra og kylfinga fara því ekki saman.  

Á flottasta golfvelli heims er allt fullkomið. Enginn fær að leika hann.

Mynd: Golfmót í Leirunni í febrúar.