Kylfukast

Stóra golfvallarmálið
Sunnudagur 11. apríl 2010 kl. 20:48

Stóra golfvallarmálið

Íslenskt þjóðfélag fann sér enn eitt hneykslismálið í síðustu viku, þegar borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að veita GR 230 milljón króna styrk til stækkunar Korpúlfsstaðavallar. Sirkusinn sem fylgt hefur í kjölfarið er með hreinum ólíkindum.  Meira að segja sérfræðingar sem vita ekki einu sinni hvernig golfkylfa lítur út hvað þá hafa komið á golfvöll tjá sig um íþróttina á rökstólum Fréttablaðsins.  Við golfarar höfum nú látið það vera í okkar pistlum að setja út á listamannalaun og fleiri menningartengd málefni, þó mörg séu með eindæmum vitlaus.

 

En nóg um það. Hér er verið að tala um GR. Málið er svo viðkvæmt að í vikunni var orðið “golf” orðið jafn eldfimt og “Icesave”.  Meira að segja hafa spunnist sögur um það að sjálft Golfsambandið hafi tapað stórum styrktaraðilum vegna málsins. Sel það ekki dýrara en það er keypt.  Þetta mál er mér nokkuð skylt.  Sú stækkun Korpúlfsstaðavallar sem nú er í framkvæmd og samþykktin snýst um er nefnilega upphaflega skissuð upp af okkur Haraldi Heimissyni og kostnaðaráætlunin unnin af mér í framhaldinu. 

 

Samningurinn sem svo er nú haldið fram að GR hafi ekki efnt var undirritaður í tíð minni sem framkvæmdastjóri GR.  Því finnst mér við hæfi að leyfa lesendum Kylfukastsins að fá smá innsýn í málið því að mínu mati er gjörsamlega fáránlegt að halda því fram að GR hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar skv. þeim samningi.

 

Fyrir kosningar árið 2006, skrifaði Reykjavíkurborg undir samning við GR, þar sem borgin skuldbatt sig til að stækka Korpúlfsstaðavöll í 27 holur. Þar sem skipulagsmál voru óljós og önnur mál sem átti eftir að ljúka tengd framkvæmdum í Grafarholti, var gerður fyrst samningur um greiðslur til að ljúka framkvæmdum í Grafarholti, en vinna átti að skipulagsmálum á núverandi kjörtímabili og ljúka greiðslufyrirkomulagi um stækkunina í framhaldinu.

 

Í samningnum sem gerður var árið 2006 voru tilteknar eftirfarandi framkvæmdir í Grafarholti.  1. Bygging vélageymslu.  2. Bygging Grafarkotsvallar. 3. Þjónustuálma og lagning gervigrass í Básum. 4. Sléttun brauta á Grafarholtsvelli.  5. Framkvæmdir við Litla völlinn á Korpúlfsstöðum. Heildarkostnaður við framkvæmdirnar var áætlaður 267 milljónir króna.  Reykjavíkurborg lagði til 210 milljónir, GR 57 milljónir samkvæmt samningnum.

 

Það sem aldrei hefur komið fram í umræðunni er að þegar samningurinn var undirritaður hafði GR á árunum 2004 – 2006 þegar lokið framkvæmdum vegna samningsins fyrir um 112 milljónir.  Byggingu Grafarkotsvallar lauk árið 2006, lagningu gervigrass var lokið í Básum árið 2006, og bætt hefur verið í á undanförnum árum. Sléttun við 15. braut var lokið árið 2006, en þar á undan höfðu brautir nr. 4, 5 og 14 verið sléttaðar að hluta, auk þess sem umfangsmiklar drenframkvæmdir höfðu farið fram á 16. braut.  Öllum framkvæmdum við Litla völlinn á Korpu var lokið, en verulega hefur verið bætt í á undanförnum tveimur árum.

 

Það sem eftir stendur er að ekki hefur verið haldið áfram með sléttun brauta eins og til stóð, en í staðinn voru allir stígar vallarins malbikaðir. Ástæður má m.a. rekja til þess að Íslandsmótið í höggleik var haldið í Grafarholti og ekki víst að brautir væru boðlegar í Íslandsmót, nýtyrfðar.  En í samningnum er sérstaklega tilgreint að þær framkvæmdir muni standa yfir næstu 5 árin og því tímarammi klúbbsins við brautasléttun út árið 2011.

 

Þá standa í raun eingöngu eftir bygging vélageymslu og þjónustubyggingar við Bása. Klúbburinn sýndi þar mikla ráðdeild þegar efnahagshrunið varð hér í lok árs árið 2008, en ekki nóg með það.  Framkvæmdin við vélageymsluna og þjónustubyggingu Bása  er jafnt eiginfjárframlagi klúbbsins inn í samninginn sem undirritaður var. Fyrsta áfanga þjónustubyggingar við Bása er í raun lokið með hurðaísetningu á 1. hæð. 

 

GR var búinn að lána Reykjavíkurborg inn í samninginn 112 mkr. á árunum 2004-2006 því Borgin hefur alltaf greitt eftirá.  Því má alveg jafna því þannig út að þegar greiðslur borgarinnar loksins koma inn í samninginn, – að GR noti svo sitt eiginfjárframlag í þær framkvæmdir sem aftast eru í röðinni þó ekki væri nema til að jafna vaxtakostnaðinn. Þannig er það mitt mat á þessum málum að GR skuldi hreinlega ekkert inn í þennan samning – og hafi jafnvel fylgt honum betur en stjórn klúbbsins sjálf áttar sig á í dag.  Það er vandasamt verk að halda utan um söguna, þegar framkvæmdaárin eru mörg og skipt er um forystu bæði í golfklúbbnum og ekki nema fjórum sinnum í borgarstjórn á einu kjörtímabili.  Samninga má svo túlka – af því hefur heil stétt manna lífsviðurværi sitt.

 

Það er mjög leitt að stærsta og eitt best rekna íþróttafélag landsins sé dregið á þennan hátt inn í pólitíkst moldviðri.  Embættismenn Reykjavíkurborgar hafa unnið störf sín af kostgæfni og kjörnir borgarfulltrúar bæði meiri og minnihluta hafa alltaf verið hafðir með í ráðum.  Það hefur sést áður að í kosningaslag er öllum meðulum beitt. Lærdóminn sem helst má þó af þessu draga er að golfforystan á Íslandi er að standa sig afskaplega illa í því að halda merki íþróttarinnar á lofti, sem almenningsíþróttar. Næst stærsta sérsamband landsins á fyrir löngu að vera búið að kveða niður þann ríkisbubbastimpil sem á golfinu er.  Betra er seint en aldri.  Byrjum á því strax.

 

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson