Kylfukast

Föstudagur 10. apríl 2009 kl. 09:34

Meistaradeildin - forkynning

Ég biðst afsökunar frá því hversu langt er um liðið frá síðasta pistli mínum. Eins og landsmenn þekkja hafa verið sviptingar í fjármálageiranum, þar sem ég hef starfað undanfarin 2 ár. Mitt hlutskipti frá því síðasta grein var skrifuð var að vera sendur heim með rauða spjaldið. Því var lítið annað til umræðu en að gera Meistaradeildina og fleiri golfverkefni sem hafa verið kynnt hér í Kylfukastinu að veruleika.  Ég læt duga að forkynna hér Meistaradeildina. Vonandi undir lok næstu viku mun ég svo geta kynnt verkefnið "Golfvöllur ársins", sem fjallað var um hér á þann 23. nóvember síðastliðinn.

Ég bið þá sem lesa að vera ófeimna við að hafa samband við mig beint á netfangið [email protected], eða í síma 866-2100.  Ég fékk mjög góð viðbrögð við fyrri greininni um Meistaradeildina og þakka þeim aðilum kærlega fyrir innleggið.

Meistaradeildin í golfi
Reglugerð drög II - til upplýsinga

Þátttakendur:
Heimild til þátttöku hafa kylfingar sem við upphaf mótaraðarinnar hafa forgjöf frá 3,5 til 20,4 og ná 19 ára aldri á almanaksárinu (fæddir 1990).  Meistaradeildin er vettvangur fyrir kylfinga sem vilja keppa og hafa gaman af keppni.  Þátttakendur þurfa að vera vanir kylfingar og geta haldið uppi ásættanlegum leikhraða í spennuþrunginni keppni.  Eins og forgjafarmörk gefa til kynna hafa bestu afreksmenn ekki rétt til þátttöku, enda heldur Golfsamband Íslands úti mjög góðri mótaröð fyrir okkar bestu afrekskylfinga hvort sem um er að ræða fullorðna eða unglinga undir 18 ára og yngri.  Því er keppnin hugsuð sem vettvangur fyrir keppnismenn.

Forgjöf:
Hámarks gefin forgjöf er 18 högg, eða 1 högg á holu.  Að öðru leyti ræðst vallarforgjöf skv. reglum EGA.  Holukeppni er leikin með fullri forgjöf að hámarki 18.

Teigar:
Karlar leika af gulum teigum, konur af rauðum teigum.

Liðsskipan:
Fjórir leikmenn skipa lið.  Heimilt er að skrá einn varamann til leiks.  Hver leikmaður má aðeins leika með einu liði og sama gildir um varamenn.  Hvert lið skipar fyrirliða sem er ábyrgur fyrir sínu liði og sér um samskipti við mótsstjóra.  Hverju liði er skylt að hafa nafn.  Æskilegt er að liðsmenn klæðist sama lit í keppni og helst að lið eigi búning.  Liðum er heimilt að hafa styrktaraðila og bera auglýsingar á búningum sínum.

Keppnin reynir ekki aðeins á golfhæfileika, heldur einnig herkænsku.  Uppstilling liðsins getur verið það sem skiptir höfuðmáli.

Keppnisfyrirkomulag:
Leikið er í 4 liða riðlum.  Leiknar eru 3 umferðir. Ein í maí, ein í júní, ein í júlí.  Úrslit eru leikin í ágúst.  Efstu tvö liðin úr hverjum riðli komast í úrslit. 
Leikið verður á virkum dögum (mán – mið) á nokkrum af bestu 18 holu völlum landsins. 

Lágmarksfjöldi þátttakenda miðast við 16 lið.

Riðlakeppni
Holukeppni:
Leikin er holukeppni milli liða – bæði með og án forgjafar.
Sex vinningar eru í boði í hverjum leik. 
1. Tveir liðsmenn leika “tvímenning” (singles) 2 x 9 holur.  Skipt um mótherja eftir 9 holur. Tveir leikjanna skulu leiknir án forgjafar og tveir með forgjöf. Allar holur telja
2. Tveir liðsmenn leika saman, fjórmenning holukeppni.  Fyrri 9 holurnar er leikinn  betri bolti með forgjöf (1 stig). Á á seinni 9 samanlagðir punktar með forgjöf (1 - stig)  Eins og í tvímenningnum, þá telja allar holur þannig að hægt er að vinna 9-0, 8-1, 7-2, o.s.frv. 
a. Hér skal tekið til athugunar greina að lið getur sent einungis 3 menn til leiks í umferð. Þá mun einn leikmaður leika á móti tveimur fjórmenningi. 

Þegar leik er lokið þá hefur lið bæði unnið sér inn stig og hefur “markatölu” sem í raun eru samanlagðar holur unnar og tapaðar í heildina.  Þannig getur lið sem ekki tapar einni einustu holu haft í lok umferðar 6 stig og „markatöluna“ 54-0.  Í lok riðlakeppni 18 stig og markatöluna 162-0. 

Tvö efstu liðin í hverjum riðli að loknum þremur umferðum komast í Úrslitaumferð.  Úrslit innan riðla:
1. Flest stig (unnir leikir)
2. Séu flest sig jöfn, er það lið ofar sem er með betri „markatölu“ þ.e. hefur unnið fleiri holur
3. Séu lið enn jöfn, gildir innbyrðis viðureign
4. Séu lið enn jöfn – shootout á 18. holu þess vallar sem leikið er á í 3. umferð , næst holu frá 100 metra mælingu að flöt.  Hvert lið fær 3 tilraunir, hver leikmaður að hámarki eina.

Tekið skal sérstaklega fram að ástæða er fyrir því að leikfyrirkomulagið er með þessum hætti.
1. Holukeppni er mun meira spennandi höggleikur og hið upphaflega leikform íþróttarinnar.  Það vita þeir sem leikið hafa holukeppni og fylgst með t.d. Ryder bikarnum.  Mjög lítið framboð er af holukeppnismótum hér á landi.
2. Leikjunum er skipt í 2 x 9 holur, og leikið um allar holur til að keppnin endist að að einhverju sé að keppa á hverri holu, líka fyrir þá sem eiga „slæman dag“.
3. Markatala skiptir máli þegar fengin eru úrslit.

Aukaverðlaun í hverri umferð
Nándarverðlaun:
Á tveimur par 3 holum í hverri umferð

Lengsta teighögg næst línu:
Á einni braut í hverri umferð

Lið umferðarinnar:
Það lið sem skorar best (fær flest stig og er með bestu „markatöluna“).

Leikmaður umferðarinnar:

Sá sem skorar best (fær flest stig og er með bestu „markatöluna“).

Úrslitaumferð:
Leikinn er 18 holu höggleikur.  Þrjú skor telja.  Tvö bestu skorin með forgjöf og besta skor án forgjafar.  Skorin raða liðum í töluröð.  Efstu tvö liðin leika holukeppni til úrslita með sama fyrirkomulagi og í riðlakeppninni, tvö næstu lið leika um þriðja sæti of svo koll af kolli.  Verði um oddatölu að ræða mun það lið sem aftast er í röðinni ekki leika um sæti.  Verði fleiri en 10 lið í úrslitaumferðinni, þá munu þau lið sem lenda í 11. sæti og aftar eftir höggleikinn ekki leika holukeppni í úrslitunum. Úrslitadagurinn er því 36 holu dagur.

Sigurliðið fær í mótslok til varðveislu Meistaradeildarbikarinn.

Leikdagar:
Leikdagar verða á virkum dögum (mán – mið).  Leikur hefst á 18 holu velli utan höfuðborgarsvæðisins kl. 17:30 stundvíslega.  Ræst er út af öllum teigum í einu. Hámark 80 leikmenn á velli (5 riðlar).

Bikarkeppni:
Bikarkeppni Meistaradeildarinnar verður auglýst síðar. Bikarkeppnin verður „höggleikskeppni“ milli einstaklinga sem leika í Meistaradeildinni.  Það lið verður bikarmeistari sem skilar inn samanlagt lægsta skori með því að leggja saman besta skor liðsins „án forgjafar“ og besta skor liðsins „með forgjöf“.  Það má þó ekki telja skor sama leikmanns tvisvar.  Bikarkeppnin verður leikin um helgi.  Þátttökugjald verður hóflegt.  Sigurvegari í Bikarkeppninni verður Bikarmeistari meistaradeildarinnar.  Veitt verða verðlaun fyrir 3 bestu einstaklings-skor með og án forgjafar.

Vellir:
Þegar hefur verið gerðir samningar um leik á Hólmsvelli í Leiru, Þorláksvelli í Þorlákshöfn, Kiðjabergsvelli í Grímsnesi.  Samningar við fleiri velli eru í pípunum.

Viðurlög:
Mæta of seint
Mæta ekki til leiks - sekt
Leikið á rangri forgjöf
Ósæmileg framkoma.
Nánar á kynningarfundi Meistaradeildarinnar.

Þátttökugjald:
Þáttökugjald fyrir alla mótaröðina verður kr. 6.250 á mann eða 25.000 kr. á lið.  Kjósi lið að skrá til leiks varamann kostar það kr. 5.000 til viðbótar. 
Fyrir þá sem hafa gaman af að reikna þá gera það alls 1.560 kr. fyrir hverja umferð á mann, en ljóst er fyrirfram að einungis tvö lið af hverjum fjórum mun leika fjórar umferðir, svo fyrir þá sem aðeins komast þrjár umferðir verður kostnaðurinn kr. 2.080 á umferð.

Upplýsingar um stöðu:
Allar upplýsingar og stöðu verður að finna á vefsíðunni www.meistaradeildin.is (heimasíða er í vinnslu) og www.kylfingur.is .  Öll skor verða skráð inn á www.golf.is og gilda til hækkunar og lækkunar forgjafar.

Teknar verða myndir af öllum liðum og ber þeim að fylla út upplýsingar um leikmenn sem birtar verða á heimasíðunni.

Kynningarfundur:
Kynningarfundur um mótið verður haldinn föstudaginn 24. apríl.  Fundastaður verður auglýstur síðar.

Dregið í riðla – kynningarfundur 2:
Dregið verður í riðla á opnum fundi þann 15. maí.  Keppendum er öllum boðið að mæta á fundinn til að meta andstæðingana.   Umgjörð mótsins verður kynnt nánar við þetta tilefni ásamt styrktaraðilum.

Sjónvarp:
Gerðir verða 30 mín, sjónvarpsþættir um hverja umferð (alls 4 þættir). Keppendur verða að vera tilbúnir til þess að mæta í viðtöl í sjónvarpsþáttinn.  Nánar á kynningarfundi Meistaradeildarinnar.

Fyrirlestrar og sameiginlegur kvöldverður:
Í lok hverrar umferðar verður boðið uppá 15-30 mínútna fyrirlestur um málefni tengd golfi.  Á 19. holu viðkomandi vallar verður boðið uppá mat og mjöð á sanngjörnu verði.

Umsjónaraðili:
Umsjónaraðili Meistaradeildarinnar er 3pútt ehf. Mótsstjóri er Margeir Vilhjálmsson.  Nánari upplýsingar er hægt að fá í síma 866-2100 eða með því að senda fyrirspurn á netfangið [email protected]

Skráning:
Nánar verður tilkynnt um skráningu á kynningarfundi þann 24. apríl.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson