Kylfukast

Hola í (vind)höggi – Afsökunarbeiðni til Harðar Þorsteinssonar
Miðvikudagur 16. júní 2010 kl. 09:41

Hola í (vind)höggi – Afsökunarbeiðni til Harðar Þorsteinssonar

Síðastliðinn laugardag gerðist ég svo grófur að gera athugasemd við það hvernig staðið var að framkvæmd Pro Fitness mótsins á Eimskipsmótaröðinni í greinardálki mínum Kylfukast, á kylfingi.is. Greinin birtist undir nafninu: „Vandmeðfarið vald“.

Eitthvað fannst framkvæmdastjóra GSÍ, Herði Þorsteinssyni, að sér vegið í greininni, sem var þó ekki meiningin, því mér finnst hann geðveikt fínn gaur. Bara fljótfær í ákvarðanatökum í mikilvægum golfmótum. Í svargrein sinni “Vindhögg Margeirs”, sem birt hefur verið á kylfingi.is og igolf.is rökstyður Hörður ákvörðun mótsnefndarinnar með því að vitna í Mótabók GSÍ 2010 og svo í Decision 33-2d/1.

Á síðu 4 í Mótabók GSÍ kemur fram að hún sé að miklu leyti unnin upp úr bókinni “Guidelines on Running a Competition” frá R&A. Stóri munurinn er hinsvegar sá að Mótabók GSÍ er 20 síður, meðan “Guidelines on Running a Competition” er 124 síður með viðaukum. “Guidelines on Running a Competition” á frummálinu er hægt að nálgast á (http://www.randa.org/en/RandA/Downloads%20and%20Publications.aspx)
Mótahandbók GSÍ 2010 er hægt að nálgast undir (http://www.golf.is/pages/forsida1/umgsi/utgefidefni/?doc_cat_id=0&doc_inst_id=3279&iw_language=is_IS)

Ef einhverjir kylfingar hafa áhuga á að kynna sér þessi mál hvet ég þá sérstaklega til að lesa síður 60-64 í “Guidelines on Running a Competition” en einungis þannig geta menn gert sér grein fyrir hversu langt R&A leggur til að sé gengið áður en hring í golfmóti er aflýst, m.a. með því að sópa vatni af flötum, breyta holustaðsetningum o.s.frv.

Hvað varðar tilvitnun í Decision 33-2d/1, hvet ég áhugasama til að lesa þessa Decision á frummálinu, og jafnframt lesa svo Decision 33-1/2, og muna það allan tímann að 16 leikmenn höfðu skilað inn skori á fyrsta hring – þegar ákvörðun var tekin um að aflýsa. Sjá Decisions (http://randapublic.loghar.com/flash/decisions/decisions.html)

Ég bið Hörð að lokum innilegrar afsökunar á gagnrýninni, hún átti ekki að særa neinn, frekar vera ábending um það að sýna verði mótaröðinni, leikmönnum og golfreglunum virðingu.

Þeir sem nenna að skoða þetta allt, geta svo dæmt um hversu slæmt vindhöggið var.

Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson