Kylfukast

Hæfniskröfur framkvæmdastjóra
Miðvikudagur 20. janúar 2010 kl. 22:11

Hæfniskröfur framkvæmdastjóra

Það verður ekki annað sagt en staða mála í Urriðavatnsdölum sé nokkuð sérstök. Næst stærsti golfklúbbur landsins hefur auglýst eftir framkvæmdastjóra, sem mun þá verða sá þriðji til að gegna starfinu á 5 mánuðum. Það sem vakti sérstaka athygli mína þegar staðan var auglýst í fjölmiðlum um síðastliðna helgi, voru hæfniskröfurnar.

Þær voru eftirfarandi:

- Háskólamenntun sem nýtist í starfi

- Frumkvæði og metnað til að ná árangri

- Mjög góða samskiptahæfni

- Gott vald á töluðu og rituðu máli og hæfni til framsetningar í skýrslum og kynningum

- Reynsla af stjórnun 

Þessar hæfniskröfur eru fyrir mér góðar og gildar, nema hvað þær eru gríðarlega opnar. Fyrir mér hljómar þetta svolítið eins og þeir sem auglýsa (stjórn klúbbsins) hafi litla hugmynd um hverju þeir eru að leita að.  

Hvaða háskólamenntun er talið að nýtist í starfi framkvæmdastjóra golfklúbbs? Það er ekki tilgreint. Er það Lögfræði? Hagfræði? Sagnfræði? Viðskiptafræði? Viðskiptahagfræði?  Líkast til er Sálfræði best af þessu öllu. Aðili sem getur huggað kylfinga sem eru brotnir eftir illa leikinn 18 holu hring. Frumkvæði, metnaður, samskiptahæfni (sem reyndar er líkast til það sama og gott vald á rituðu og töluðu máli) eru allt eiginleikar sem nauðsynlegt er að prýði góðan framkvæmdastjóra.  Nema stundum getur of mikið frumkvæði farið í taugarnar á stjórnar- og félagsmönnum.  Reynsla af stjórnun er sannarlega kostur.  En hvernig stjórnun?  Er það verslunarstjórn í búð? Verkstjórn í verksmiðju? Eða þarf viðkomandi að hafa borið titil eins og "framkvæmdastjóri" áður?

Hérna er ég nú dottinn í sama dónaskapinn og venjulega. Hef allt á hornum mér. Það sem pirrar mig ómælt þegar verið er að auglýsa eftir framkvæmdastjóra næst stærsta golfklúbbs landsins er að það eru engar kröfur um að hann geti neitt í golfi eða yfirhöfuð viti neitt um golf. Mér sýnist m.v. uppsetningu auglýsingarinnar að bókasafnsvörður frá Bíldudal eigi meiri möguleika á stöðunni en t.d. menntaður golfkennari frá PGA skólanum. Það vita það allir að bókasafnsfræðingar hafa mjög góða samskiptahæfni, einstakt vald á töluðu og rituðu máli. Skýrslur þeirra og kynningar eru framúrskarandi og á bókasöfnum kemst maður ekki upp með neitt múður. Þá heyrist strax. Suss.Suuuuussssss. Bókasafnsfræði er háskólamenntun. Þá er bara eftir frumkvæði og metnaður sem er eitthvað sem fólk fær í vöggugjöf, eða þá er alið upp í því, frekar en það sé kennt nokkurs staðar.

Hér er eitthvað mikið að. Það hafa svo sem ekki verið gefnar út af Golfsambandinu neinar skilgreindar hæfniskröfur fyrir framkvæmdastjóra golfklúbba.  Kannski engin ástæða til.  Það gekk því miður ekki vel hjá GO á síðastliðnu ári. Vandinn gæti verið og er líkast til uppsafnaður.  Að stýra klúbbi eins og GO er mikið starf. Um er að ræða eina glæsilegustu golfaðstöðu landsins og 1400 félagsmenn. Klúbburinn rak einnig sl. sumar veitingasöluna í eigin reikning. Ég held að umsvifin hafi verið alltof mikil fyrir einn framkvæmdastjóra og einn starfsmann í bókhaldi. Framkvæmdastjóri í golfklúbbi er nefnilega eins og annað fólk, hann á ekki nema í mesta lagi 16 vinnustundir í hverjum sólarhring yfir sumartímann. Það dugar bara ekki til.  Því þarf hann í klúbbi eins og GO, a.m.k. tvo aðstoðarmenn á skrifstofu.  Einn til að halda utan um félagatalið og annan til að sinna ýmsu daglegu amstri sem til fellur og samskiptum við styrktaraðila.  Bókhaldið er svo sérverk.  Hlutastarf eða aðkeypt. 

Fyrrverandi formaður vildi leggja niður barna-,unglinga- og afreksstarf sökum vöntunar á styrkjum til rekstrar þess. Hinn nýi hefur nú strax náð í þriggja milljón króna rekstrarstyrk fá Garðabæ, þar af er ein eyrnamerkt barna- og unglingastarfi. Ég get lofað ykkur því að ein milljón dugar skammt, nema börnin og unglingarnir séu þeim mun færri.  Vel úr garði gert barna- og unglingastarf er mjög kostnaðarsamt. En hvað þarf nýi framkvæmdastjórinn s.s. að vita um það. Þess er hvergi getið í hæfniskröfunum að hann þurfi að hafa þekkingu á íþróttastarfi, hvað þá golfi.

Ég óska verðandi framkvæmdastjóra GO og nýrri stjórn GO alls hins besta og vona að þeim farnist vel úr hendi erfið verkefni sem framundan eru. Golftímabilið er handan við hornið.

Með golfkveðju,

Margeir Vilhjálmsson

Mynd: Bikarinn var leikinn á glæsilegum Urriðavelli sl. haust.