Kylfukast

Föstudagur 17. apríl 2009 kl. 22:22

Æfingahringir undir eftirliti

Nýlega sendu PGA  á Íslandi og SÍGÍ frá sér tillögu um hvernig bæta megi umgengni á golfvöllum fyrir mót á íslensku mótaröðunum. Slíkar reglur eru að mati félaganna, ef rétt er lesið í sameiginlega tilkynningu þeirra, nauðsynlegar vegna þess að umgengni á völlunum hefur að þeirra mati oft verið afar slæm í kringum íslensku mótaraðirnar. Nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða. Gera má ráð fyrir að félögin hafi skipað sameiginlega nefnd til að skoða þessi mál en ekki kemur fram hverjir sátu í henni og beri þar með ábyrgð á framsetningunni.
Það er mjög gott að félögin láti til sín taka með þessum hætti.  Það lítur út eins og tillögunni sé frekar troðið niður í kokið á PGA af vallarstjórunum í SÍGÍ,  „..það er metnaður hvers vallarstjóra að vellirnir skarti sínu fegursta þegar mót eru spiluð“.  Þessi setningarhluti í sameiginlegri tilkynningu félaganna er kannski rauði þráðurinn í því sem á eftir fylgir. Tillagan virðist (alveg sama þótt hún sé þýdd og staðfærð frá öðrum mótaröðum) vera frekar hraðsoðin og illa ígrunduð. Því miður. Og ef þetta er þýtt og staðfært – er þá alveg víst að útaf því að þetta er búið til í útlöndum að það sé alger snilld? 
Af hverju var þetta ekki kynnt svona: „Það er metnaður hvers atvinnukylfings að vera öðrum kylfingum til fyrirmyndar, að ná sem bestum árangri í hverju móti sem hann leikur og að leggja sig fram um að ganga vel um þá velli sem leikið er á og fylgja þeim reglum í hvívetna sem golfklúbbar hafa sett um umgengni
Það er rétt að jafnframt komi fram áður en lengra er haldið að ég er menntaður golfvallafræðingur og kem því úr stétt SÍGÍ manna ef einhverjum finnst umfjöllunin ósanngjörn.  Förum aðeins nánar yfir málið.
Að mati PGA og SÍGÍ eiga reglurnar að taka til þess sem „má og ekki má“  á auglýstum æfingahringjum fyrir íslensku mótaraðirnar.
Tillagan:
1. Það má taka tvö upphafshögg á teig.
Gott og vel. Lítið um það að segja. Hér er enginn greinarmunur gerður á par 3,4 eða 5 holu.
2. Ef leikmaður missir flöt, má slá eitt auka högg að flöt.
Fyrir það fyrsta, hvað er að missa flöt?  Geng út frá því að það sé að „hitta ekki“ flötina.  Ef leikmaður hittir ekki flöt í aukahögginu, hvað má hann þá gera? Verður hann að hætta að leika brautina?
3. Ef leikmaður hittir flöt, má ekki slá annan bolta að flöt.
Par 5 hola. Leikmaður reynir að slá inná í tveimur höggum og hittir flötina, er honum þá óheimilt að leggja öðrum bolta upp og slá hann svo inná í 3. höggi?  Er þetta ekki æfingahringur?
4. Það má vippa þrjú vipp úr flatarkanti, svo lengi sem enginn er að bíða
Ha? Þrjú vipp ef enginn er að bíða? En ef einhver er að bíða? Má þá taka 5 vipp? Eða 11 eða ekkert? Spurningunni er varpað fram vegna þess að leikmaður sem hefur reynt að slá tvisvar sinnum inn á flötina og hitti með hvorugum boltanum gæti verið í smá vanda með hvað hann mætti gera.
5. Það má slá tvö glompuhögg inná flöt á hverri holu, svo lengi sem enginn bíði.
Spurningin er  einföld. Hvað má slá marga bolta uppúr glompunni ef leikmaður hittir aldrei flötina?  Alveg sama hvort einhver bíður eða ekki?
6. Það má taka fimm pútt á flöt sé enginn að bíða
Hvað má taka taka mörg pútt ef einhver er að bíða?  Er þá bannað að þrípútta ef einhver bíður?


Þið afsakið leiðindatóninn í þessum athugasemdum en mér finnst þetta því miður afskaplega illa fram sett og félögunum tveimur til lítils sóma.  En það hefur nefnilega líka með „refsileiðirnar“ að gera. Ég hef ekki áður séð þetta orð notað í reglum tengdum golfi, refsileiðir. Þær eru að mínu mati nokkuð harðar.  Ég velti því líka fyrir mér hvernig hægt sé að beita frávísunarvíti áður en leikur í hinu eiginlega móti hefst.  Nema að hugsunin sé þá sú að gera æfingahringina að hluta mótsins og mótið sé í raun hafið þegar æfingahringirnir eru leiknir. Það brýtur þá væntanlega í bága við reglur um leik á velli milli keppnishringja og menn fengju bara beint frávísun fyrir að leyfa sér að leika æfingahring.

Reglur um umgengni golfvalla eru til staðar hjá öllum golfklúbbum landsins. Einfaldasta ráðið til að bæta umgengni um golfvellina okkar er að höfða til almennrar skynsemi kylfinga. Sé það gert á réttan og markvissan hátt næst mikill og góður árangur. Illa ígrundaðar reglur sem ómögulegt er að framfylgja, með hörðum viðurlögum eru engum til framdráttar.


Með golfkveðju,
Margeir Vilhjálmsson