Fréttir

„Við grínuðumst með það hvert okkar myndi fá nafn sitt á vegginn“
Jónas Jónasson og Alda Harðardóttir á 16. flötinni á TPC Scottsdale eftir draumahögg Jónasar
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
mánudaginn 16. maí 2022 kl. 10:23

„Við grínuðumst með það hvert okkar myndi fá nafn sitt á vegginn“

Jónas Jónasson sló draumahöggið á sjálfri partýholunni á TPC Scottsdale

Jónas Jónasson flugstjóri og félagi í Golfklúbbi Vestmannaeyja gerði sér lítið fyrir á dögunum og sló draumahöggið á 16. braut TPC Scottsdale í Arizona í Bandaríkjunum.

Holan sem um ræðir er sögufræg í golfsögunni og hefur oft verið kölluð partýholan.

Phoenix Open hefur verið haldið á TPC Scottsdale síðan árið 1932. Árið 1997 þegar Tiger Woods, sem gerst hafði atvinnumaður árið áður, fór holu í höggi á brautinni, trylltust viðstaddir af fögnuði og bjórdósir flugu niður úr stúkunni.

Síðan Tiger sló beint í holu það ár hafa Steve Stricker sama ár, Mike Sposa árið 2002, Jarrod Lyle árið 2011, Francesco Molinari árið 2015 og nú síðast þeir Sam Ryder og Carlos Ortiz í febrúar á þessu ári, slegið draumahöggið á partýholunni.

Þótt þúsundir manna hafi ekki verið visðstaddir og þótt bjórdósum hafi ekki rignt yfir Jónas Jónasson þegar boltinn hans rataði beint í holu hlýtur að vera sérstakt að hafa séð á eftir honum ofan í á þessari goðsagnakenndu holu. Kylfingur sló á þráðinn til Jónasar, sem staddur var í Flórída á leiðinni út á golfvöll.

„Þetta var alveg frábært. Það stóð ekki til að spila völlinn í þessari ferð. Við vorum með kanadísku vinafólki okkar sem stungu upp á því með stuttum fyrirvara. Við grínuðumst með það hvert okkar myndi fá nafn sitt á vegginn ásamt stjörnunum sem hafa farið holu í höggi á 16. brautinni“

Hvað varstu með í höndunum á teig?

„Ég var með 8 járn. Þetta voru 137 metrar. Annars var þetta í þriðja sinn sem ég fer holu í höggi. Það eru ekki nema 20 mánuðir síðan það gerðist fyrst en þetta var í fyrsta sinn sem ég sé boltann rúlla ofan í.“

Jónas Jónasson á 16. teig TPC Scottsdale eftir að hafa séð á eftir boltanum ofan í holuna

Heldurðu að það sé tilviljun að þér hafi tekist að slá draumahöggið svona oft á þetta stuttum tíma?

„Ég er búinn að spila golf í 20 ár en af einhverju viti síðan 2008. Ég reyni að æfa mig og verða betri og líkurnar hljóta að aukast á því að þetta gerist því oftar sem maður hittir flötina og er nálægt pinna. Ég er mjög duglegur að spila og sem flugstjóri ferðast ég mikið og reyni á ferðum mínum að spila eins mikið og ég get. Svo hefur konan mín, Alda Harðardóttir, farið tvisvar holu í höggi, í fyrra skiptið í Orlando og í seinna skiptið á 18. brautinni á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Ég þurfti því að fara að sýna eitthvað,“ segir Jónas í gamni.

  

En hvernig voru hin draumahöggin þín?

„Það fyrsta var á 4. braut á Landinu á Korpunni. Það er þá hola 22. Ég man ekki alveg hvað hún spilaðist löng þann daginn en það var á hvítum teigum, sjálfsagt einir 150 metrar en ég sló með 7 járni.“

„Ég á góða sögu af öðru draumahögginu mínu. Það var á Icelandair Volcano Open í Eyjum í fyrra. Við vorum komin á 14. teiginn og fólkið í hollinu á undan okkur var að ganga af 14. flötinni. Leifur Guðjónsson úr Grindavík var í hollinu og hann segir við félaga sína í hollinu að fólk skuli nú fylgjast vel með því þessi, sem er á 14. teig og er að búa sig undir að slá, sé að fara að setja hann beint ofan í. Ég sló með 9 járni en brautin er u.þ.b. 120 metra löng. Leifur hélt áfram að tala við hollið á meðan boltinn var í loftinu: „Sjáið þið, hann fer beint í,“ og viti menn það var nákvæmlega það sem gerðist. Leifur og hollið hans fagnaði og hoppaði og lét öllum illum látum enda var ansi skemmtilegt hvernig Leifur kallaði þetta en við þekktumst ekkert áður en þetta gerðist,“ segir Jónas Jónasson að lokum.

Jónas og Alda ásamt kanadísku vinahjónum sínum við vegginn á TPC