Fréttir

„Vallarfræðin eru að breytast úr búskap í vísindi“
Frá 16. braut Hvaleyrarvallar
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
fimmtudaginn 12. maí 2022 kl. 14:32

„Vallarfræðin eru að breytast úr búskap í vísindi“

Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, vallarstjóri á Hvaleyrarvelli, veitir innsýn í störf vallarstjóra

„Hlutverk vallarstjóra er sennilega misjafnt eftir völlum. Meginhlutverk okkar er samt sem áður að passa og taka ábyrgð á að allir grasfletir á völlunum séu upp á sitt besta öllum stundum,“ segir Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, vallarstjóri á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis.

Guðbjartur Ísak hlaut fyrr á árinu nafnbótina, vallarstjóri ársins hjá Samtökum íþrótta- og golfvallarstarfsmanna á Íslandi. Aðspurður um þá þýðingu sem nafnbótin hafi fyrir hann sem vallarstjóra segir Guðbjartur að auðvitað sé hún ákveðin viðurkenning.

„Þetta er auðvitað ákveðin viðurkenning fyrir okkar góða teymi sem hefur unnið myrkranna á milli við að halda í og bæta gæði vallanna okkar.“

Vallarstarfsmenn á Hvaleyrarvelli

Flestir hafa einhverja hugmynd um störf vallarstjóra en í hverju felast ykkar störf?

„Vallafræðin eru svolítið að breytast úr búskap í vísindi, ef svo má að orði komast. Yfir tímabilið erum við duglegir að mæla hvað er að gerast á svæðunum okkar og tímasetjum aðgerðir eftir því. Ásamt öðru mælum við rakastig, afklippur, og hraða daglega og vinnum svo út frá þeim gögnum. Bæði til þess að fá sem besta grasfleti en einnig til þess að vinna ekki verk til einskis, eða hins verra. Svo berum við auðvitað mikla virðingu fyrir náttúrunni og viljum sýna ábyrgð í verki.“

En í hverju felast verkefnin yfir vetrarmánuðina?

„Við notum byrjun og lok vetrar oft í framkvæmdir úti á velli eins og breytingar eða lagningu drena og slík verk, sem annars myndu trufla kylfinga yfir tímabilið. Við sinnum einnig ýmsum öðrum verkefnum. Þar síðasta vetur skiptum við til dæmis um púttflöt í inniaðstöðunni hjá okkur og í vetur vorum við aðeins að taka skálann í gegn. Mestur hluti undirbúnings fyrir tímabilið fer einnig fram á veturna. Efniskaup, endurnýjun á búnaði, starfsmannamál og þess háttar. Þá þarf einnig að huga að viðhaldi véla en við hjá Keili erum með vélvirkja í fullu starfi sem sér að mestu um vélamálin.“

Framkvæmdir við 16. braut hófust í júní árið 2019. Brautin opnaði aftur ári síðar.

Svo verkefni ykkar eru ansi fjölbreytt?

„Já, það má segja að vallarstjóri sé mjög teygjanlegt hugtak og við þurfum að vera tilbúnir að hoppa í hvað sem er. Það má skilgreina það sem svo að vallarstjóri þurfi að hafa rúmlega yfirborðsþekkingu í ansi mörgu en einnig sérfræðiþekkingu á grasi. Maður þarf að vera hálfgerður rafvirki, smiður og pípari svo eitthvað sé nefnt,“ segir Guðbjartur Ísak.

Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, vallarstjóri á Hvaleyrarvelli

Það er greinilega í mörg horn að líta. Hvenær gefst tími til að hlaða batteríin?

„Við finnum tíma á veturna til að taka út okkar orlof en eðli málsins samkvæmt tökum við ekki mikil sumarfrí.“

Talið berst að gæði golfvalla á Íslandi. Vallarstjórinn segir þau góð.

„Ég held að gæðin hafi verið á uppleið í svolítinn tíma og ég myndi segja að á þessum helstu völlum séum við vel samanburðarhæf við vellina í löndunum í kringum okkur.“

Hann segir að landfræðileg lega okkar og veðurfar hafi í raun minna að segja en margur heldur.

„Það er kannski helst að trufla okkur hversu stutt vaxtatímabilið er. Norðmenn þurfa t.d. að eiga við meiri snjóþunga en við og víðsvegar um heiminn eru vetur mun kaldari en hér. Við þurfum aftur að eiga við langan vetur og höfum styttri glugga til að koma hlutunum í lag. Yfir tímabilið er loftslagið í sjálfu sér allt í lagi, a.m.k. tel ég að í umræðunni um að grasfletir hér á landi séu ekki nægilega góðir getum við ekki borið veðurfarslegar ástæður fyrir okkur, ekki þannig.“

Frá framkvæmdum við 16. braut Hvaleyrarvallar

En telur Guðbjartur að það séu aðrar hindranir í vegi okkar í því sambandi?

„Það er þá helst skortur á fjármagni. Það eru margir klúbbar sem eru að reyna að halda úti rekstri í háum gæðaflokki en eru kannski ekki með fjármagn til þess. Það má t.d. nefna að vélafloti flestra valla á Íslandi er byggður upp að miklu leyti á mjög gömlum vélum og það er sigur fyrir marga klúbba ef hægt er að endurnýja eina vél eða tvær á 3-5 ára  fresti. Eins er nýliðun í stétt grasvallafræðinga mjög lítil og brottfall hefur verið töluvert síðasta áratuginn. Aðstaðan á mörgum völlum er því miður alls ekki nógu góð fyrir okkur og í þeim efnum vantar klárlega mikið upp á til að gera starfið samkeppnishæfara á nútíma vinnumarkaði.“

Hvernig hefur samvinnan við kylfinga almennt gengið? Göngum við vel um vellina?

„Flestir ganga almennt vel um en það eru svartir sauðir á golfvöllunum eins og annars staðar. Ég vil hvetja kylfinga til að sýna völlunum og starfsfólki þeirra virðingu og ganga vel um. Fyrir hvert bananahýði, kylfufar og boltafar sem skilið er eftir á völlunum er starfsmaður sem þarf að bregða frá sínu verki til að laga það. Öll vinna starfsmanna vegna slæmrar umgengni kylfinga bitnar ekki á neinu öðru en gæðum vallanna.“

„Annars hlökkum við til að sjá kylfinga á Hvaleyrinni í allt sumar og ég held að ég tali einnig fyrir kollega mína á öðrum völlum í því sambandi.“

   

16. braut Hvaleyrarvallar er glæsileg eftir breytingarnar