Fréttir

„Langur vetur að baki og allir tilbúnir að byrja tímabilið“
Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 10:20

„Langur vetur að baki og allir tilbúnir að byrja tímabilið“

Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, um keppnishaldið í sumar

Fyrsta stóra mót ársins hjá afrekskylfingum okkar verður haldið um helgina þegar GSÍ mótaröðin hefst á Akranesi.

Á kynningarfundi Golfsambands Íslands um golfsumarið 2022 fór Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, yfir mótahald hér á landi í sumar.

Ólafur sagði mótaröðina samanstanda af sex mótum en hápunktar hennar eru Íslandsmótið í holukeppni sem að þessu sinni fer fram á Hlíðavelli Golfklúbbs Mosfellsbæjar og sjálft Íslandsmótið í golfi sem fram fer í Vestmannaeyjum 4.-7. ágúst en síðan á síðasta ári eru bæði núverandi og fyrrverandi Íslandsmeistarar með keppnisrétt á Íslandsmótinu í golfi að því gefnu að þeir standist forgjafarkröfur.

B59 hótel mótið fer fram á Garðavelli Golfklúbbsins Leynis dagana 20.-22. maí og Leirumótið fer fram á Hólmsvelli í Leiru Golfklúbbs Suðurnesja dagana 3.-5. júní. Hvaleyrarbikarinn fer fram á Hvaleyrarvelli Golfklúbbsins Keilis dagana 14.-16. júlí og þá verður mótaröðinni lokað þegar stigameistari GSÍ verður krýndur eftir Korpubikarinn á Korpúlfsstaðavelli Golfklúbbs Reykjavíkur sem fram fer dagana 19.-20 ágúst.

Þá fór Ólafur Björn yfir helstu mótin á bæði unglingamótaröðinni og áskorendamótaröðinni þar sem kylfingar framtíðarinnar öðlast dýrmæta keppnisreynslu.

Kylfingur ræddi við Ólaf Björn um keppnishaldið og afreksmálin.