„Draumurinn er að spila á risamóti“
Viðtal við Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur sem leikur á Evrópumótaröðinni
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði, hóf sitt annað keppnistímabil á Evrópumótaröðinni um helgina. Fyrsta mótið fór fram í Afríkuríkinu Kenía og bar svo sannarlega nafn með rentu: Magical Kenya Ladies Open.
PGA Baobab völlurinn í Vipingo Ridge í Mombasa í Kenía er einstaklega fallegur. Staðsetning hans við Indlandshafið og ævintýralegt dýralífið setur punktinn yfir i-ið í ótrúlegri upplifun þeirra sem spila völlinn.
Kylfingur tók púlsinn á Hafnfirðingnum knáa eftir þetta fyrsta mót keppnistímabilsins. Guðrún sagði að aðstæður á mótinu hafi verið einkar krefjandi en völlurinn var mjög harður eftir þurrkatímabil og eins var vindurinn töluverður og hitinn mikill. „Ég lít svo á að fyrsta móti sé lokið og ég hafi nælt mér í stig, þó þau hafi ekki verið mörg“, segir Guðrún Brá. „Slátturinn hefði mátt vera betri og pútterinn var kaldur. Ég var líkari sjálfri mér á laugardeginum en heilt yfir var ég ekki að spila vel. Það er samt geggjað að vera byrjuð aftur að spila og ég hlakka mikið til framhaldsins og næstu móta. Það er ótrúleg upplifun að koma til Kenía og ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til þess.“
Kenya, you have been magical 🦒🦓😍🇰🇪#RaiseOurGame | #MKLO2022 pic.twitter.com/8PkqocBheV
— Ladies European Tour (@LETgolf) February 13, 2022
Gríðarleg ferðalög
Guðrún Brá var spurð út í ferðalagið en Naíróbí er yfir 8.000 kílómetra frá Íslandi. Hún sagði að ferðadagurinn hafi verið mjög langur og tekið svolítið á. „Eftir að við lentum í Kenía þurftum við meira að segja að taka bæði innanlandsflug og sitja í bíl í klukkutíma frá flugvellinum á hótelið. Manni leið eins og maður hafi verið endalaust á ferðalagi. En það var gott að taka smá æfingu í líkamsræktarsalnum til að koma líkamanum af stað áður en lokaundirbúningur fyrir mótið hófst.“
Okkar konu gekk prýðilega á Evrópumótaröðinni í fyrra. Hún lék á 15 mótum og annað árið í röð á lokamótinu. Besti árangur Guðrúnar Brár kom á Aramco Team Series - London en þar varð hún jöfn í 12. sæti á 5 höggum undir pari á hringjunum þremur. Þá varð hún í 76. sæti á peningalistanum og vann sér inn áframhaldandi keppnisrétt nokkuð þægilega, en hvað tekur hún með sér frá síðasta keppnistímabili? „Fyrst og fremst reynsluna, þetta var svolítið stressandi til að byrja með og margt að læra. Ég þurfti aðeins að átta mig á stöðunni og hvernig allt virkaði. Einnig var ég að kynnast fólki og ekki síður túrnum auk þess að venjast ferðalögunum. Covid setti sinn strik í reikninginn og því fylgdi auka álag. En nú er ég komin inn í þetta allt saman og hef jafnframt bætt mig í golfinu. Í svona ferli eru margir þættir sem spila saman og hafa áhrif hver á annan.“
Atvinnumennska í heimsfaraldri
Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á vegferð Guðrúnar Brár í atvinnumennskunni. Hún vann sér inn þátttökurétt í janúar árið 2020 og var eins og hún orðaði það sjálf: „í geggjuðum gír að byrja að spila“. Hún fór til Ástralíu í tvö mót og flaug þaðan til Suður-Afríku en þá var umræðan um mögulegan heimsfaraldur að verða hærri án þess að hún og aðrir kylfingar veltu því sérstaklega fyrir sér. Þegar Guðrún Brá var enn í Suður-Afríku og átti að halda áfram til Sádí-Arabíu voru allir sendir heim. „Ég man vel eftir því hvernig andrúmsloftið var á flugvellinum í Suður-Afríku. Allar stelpurnar voru að reyna að koma sér heim fyrir einhvern ákveðinn tíma og það voru alls konar reglur og hindranir. Á þessum tíma var þetta mjög framandi fyrir alla og manni leið bara eins og það væri að koma einhver heimsstyrjöld. Þetta var ótrúlega skrítin tilfinning“. Guðrún Brá spilaði mikið heima á Íslandi sumarið 2020 þar sem hlé var gert á Evrópumótaröðinni. Hún varð stigameistari GSÍ það árið og Íslandsmeistari í höggleik þriðja árið í röð.
Guðrún Brá útskrifaðist úr Fresno State háskólanum í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum vorið 2017. Þar lék hún háskólagolf með The Fresno State Bulldogs en ákvað að spila sem áhugamaður út það ár.
Vorið 2018 var hún valin í úrvalslið áhugakylfinga í Evrópu sem lék gegn úrvalsliði áhugakylfinga frá Asíu- og Kyrrahafsríkjunum í Patsy Hankins bikarnum í Katar og gerðist í kjölfarið atvinnumaður.
Guðrún Brá byrjaði að spila á LET Access mótaröðinni, næst sterkustu atvinnumannamótaröð Evrópu, 24 ára gömul árið 2018. Hún fékk boð um að leika á sínu fyrsta móti á Evrópumótaröðinni vorið 2019 og svo fullan keppnisrétt á mótaröðinni ári síðar „Ég fékk þátttökurétt fyrir Evrópumótaröðina 2019 líka en dagskráin var þannig uppsett að ég komst í rauninni aðeins á eitt mót“. Hún segir ótrúlega gaman og gefandi að njóta þeirra forréttinda að vinna við áhugamál sitt. „Það er t.d. gríðarlegt tækifæri að dvelja í Kenía í febrúar en þetta er að sama skapi alveg mjög erfitt á köflum og ég ætla ekkert að skafa ofan af því. Sem betur fer toppa góðu hlutirnir alltaf þá sem kannski eru ekki eins góðir.“
Með endalaust af góðu fólki í kringum sig
Keppnistímabili Guðrúnar Brár lauk seint í nóvember í fyrra og tók hún sér gott hlé frá golfinu heima á Íslandi í kringum jólin. Guðrún lagði mikla áherslu á líkamlega þjálfun á undirbúningstímabilinu. Hún hefur æft undir stjórn þjálfara síns, Björgvins Sigurbergssonar, fyrrverandi atvinnumanns og margfalds Íslandsmeistara, en eins og flestir vita er Björgvin einnig faðir Guðrúnar Brár. „Það er svolítið formlegt að kalla pabba sinn þjálfara en hann er auðvitað í tveimur hlutverkum. Við vinnum mjög vel saman og kunnum á hvort annað sömuleiðis.
„Í gegnum tíðina hef ég verið með marga góða þjálfara hjá Keili og landsliðinu en hef alltaf litið svo á að pabbi sé þjálfarinn minn“. Guðrún Brá hefur komið sér upp góðu teymi því auk þjálfara er hún með bæði sjúkraþjálfara og sálfræðing. „Teymið er í raun mun stærra því ég er með endalaust af góðu fólki í kringum mig sem hjálpar mér á allan mögulegan hátt“. Hún segist hafa verið dugleg að spila í golfhermum á undirbúningstímabilinu en ákveðið að koma fyrr út til Kenía fremur en að æfa t.d. á meginlandi Evrópu enda sé meira en að segja það að gera ferðaáætlanir á þessum fordæmalausu tímum.
„Maður fullkomnar ekki neitt“
Guðrún Brá kveðst vera ánægð með stöðuna þrátt fyrir að hún hefði getað spilað betur á fyrsta mótinu. „Ég hef bætt mig stöðugt undanfarin ár og ég reyni alltaf að stefna hærra. Maður fullkomnar ekki neitt í þessu sporti, sem gerir það svo fallegt“. Hún segist alltaf getað fundið eitthvað sem má bæta, sama hvar hún ber niður. „Það er eitt af því sem er svo heillandi við golfið. Það og að þú getur farið að spila með t.d. lítilli frænku eða afa gamla og keppt við þau. Sportið bíður upp á svo marga möguleika.“
Guðrún segir það óneitanlega öðruvísi að vera komin á fullt í atvinnumennsku. „Að vera frá litla Íslandi og hafa skarað fram úr sem unglingur og vera úr frekar lítilli tjörn og að koma svo út í heim þar sem endalaust er af stelpum að gera það sama og ég. Auðvitað á maður alveg heima þarna en þetta er að sjálfsögðu allt annar veruleiki. Þetta er miklu skemmtilegra og með meiri keppni hefur maður enn meiri vilja til að gera betur.“
Ætlar sér að gera betur en í fyrra
Fyrirhuguð eru yfir 30 mót á Evrópumótaröðinni og því nóg að gera hjá Guðrúnu Brá á árinu. Hún segist búin að skipuleggja keppnisdagskrána í grófum dráttum en sveigjanleiki sé mikilvægur sökum Covid. „Þó ástandið líti betur út en áður er erfitt að átta sig á stöðunni. Ég vil reyna að keppa á eins mörgum mótum og ég get en um leið verð ég að passa að hafa dagskrána ekki of stífa. Ég harkaði mér tvisvar í fyrra í gegnum fjögur mót á innan við fjórum vikum og blaðran var alveg sprungin í fyrra skiptið. Á því ferli lærði ég mikið og eru þrjú mót í röð hæfilegt álag fyrir mig.“
Hvað markmiðið fyrir keppnistímabilið varðar segir Guðrún Brá að hún ætli sér að gera betur en í fyrra og draumurinn sé að spila á risamóti. „Ég reyni stöðugt að bæta hitt og þetta og tel að sú vinna muni skila mér á áfangastað“, segir þessi flotti kylfingur að lokum.
Nú tekur við nokkurra vikna hlé á Evrópumótaröðinni en næsta mót Guðrúnar Brár er upp úr miðjum mars í Sádí-Arabíu.
Kylfingur þakkar henni fyrir að gefa sér tíma fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis á Evrópumótaröðinni.