Fréttir

Yfir 80 sjálfboðaliðar á EM stúlknalandsliða í næstu viku
Stúlknalandslið Íslands á EM 2022: Ragnhildur Kristinsdóttir liðsstjóri, Pamela Ósk Hjaltadóttir, Katrín Sól Davíðsdóttir, Berglind Erla Baldursdóttir, María Eir Guðjónsdóttir, Sara Kristinsdóttir og Karen Lind Stefánsdóttir.
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 18:37

Yfir 80 sjálfboðaliðar á EM stúlknalandsliða í næstu viku

Evrópumót stúlknalandsliða 2022 verður sett með formlegum hætti, mánudaginn 4. júlí á Urriðavelli Golfklúbbsins Odds. EGA og Golfsamband Íslands eru framkvæmdaraðilar mótsins í samvinnu við GO. Þetta er í annað sinn sem Evrópska golfsambandið, EGA, heldur slíkt mót á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi en EM kvennalandsliða fór fram á Íslandi árið 2016 og tókst framkvæmdin þá mjög vel.

Framundan er spennandi golfvika þar sem bestu kylfingar Evrópu, 18 ára og yngri, í stúlknaflokki mæta til leiks. Alls taka 108 keppendur þátt frá 18 þjóðríkjum en 6 leikmenn skipa hvert lið. Með þjálfurum og fylgdarliði má búast við á bilinu 160-180 gestum.

Mótið hefst þriðjudaginn 5. júlí og því lýkur laugardaginn 9. júlí. Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds, sagði í samtali við golf.is að fjölmennur hópur sjálfboðaliða standi þétt við bakið á framkvæmdaraðilum mótsins og það sé ánægjulegt að finna fyrir góðum stuðningi félagsmanna og golfhreyfingarinnar á landsvísu.

„Það þarf margar hendur til þess að gera Evrópumót stúlknalandsliða að einstökum og eftirminnilegum viðburði. Við leituðum til okkar frábæru félagsmanna og óskuðum eftir sjálfboðaliðum. Græni sjálfboðaliðaherinn okkar frá árinu 2016 svaraði kallinu með glæsibrag og voru viðbrögðin framar vonum. Rúmlega 80 félagsmenn eru klárir að standa vaktina með okkur en án þeirra væri ekki hægt að halda slíkt mót. Sjálfboðaliðarnir fá fjölbreytt verkefni, úti á golfvellinum og í og við golfskálann. Við gerum ráð fyrir að hver sjálfboðaliði taki í það minnsta eina vakt, sem eru fjórar klukkustundir,“ sagði Þorvaldur og bætti því við að allir sjálfboðaliðarnir fái ZO-ON fatnað til minningar um aðstoð þeirra í mótinu.