Public deli
Public deli

Fréttir

Volcano open leikið í Vestmannaeyjum við bestu skilyrði
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 5. júlí 2024 kl. 19:15

Volcano open leikið í Vestmannaeyjum við bestu skilyrði

„Þetta er 28. árið sem Volcano open er haldið og Icelandair hafa verið bakhjarlar í tæp tuttugu ár,“ segir Karl Haraldsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Vestmannaeyja. Hluti af Goslokahátíðinni hefur undanfarin 28 ár, verið hið geysivinsæla Volcano open en það er punktamót leikið á tveimur dögum með svo „shootgun“-fyrirkomulagi.

Færri komast að í Volcano open en vilja segir Karl.

„Ég veit ekki alveg hvenær mótið komst á þann stall sem það er á í dag þar sem í raun er orðið uppselt í það ár fram í tímann. Þetta eru meira og minna sömu kylfingarnir ár eftir ár, sem segir eitthvað til um hve golfarar kunna að meta mótið. Fjöldinn í ár er um 196 manns, fullt má segja en við gætum kannski komið fjöldanum upp í 200 en ef við göngum lengra, göngum við á upplifun kylfinganna og það viljum við alls ekki. Fólk hefur líka gaman að fjörinu sem er í kringum Goslokahátíðina en við Eyjamenn kunnum vel þá list að búa til gott partý. Lokahófið okkar er alltaf mjög flott, Einsi Kaldi sér um matinn og má búast við því að bragðlaukarnir verði vel kitlaðir og svo er slegið upp balli, mikið stuð.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Mótið í ár hefur farið mjög vel af stað, það skiptir svo miklu máli að veðrið sé svona gott en margir vilja meina að fátt jafnist á við að leika golf í Herjólfsdal þegar veðurguðirnir skarta sínu prýðasta. Þannig hefur það verið í dag og mér skilst að veðurspáin sé betri á morgun en þá ræsum við út kl. 8 og 14. Það hefur oft verið frekar fyndið að sjá kylfingana í fyrra hollinu því eins og ég segi, það er alltaf stuð á Goslokunum og fólk vill kíkja á þá atburði og nær því ekki eins löngums svefni og annars. Allir skila sér þó en spilamennskan til að byrja með kannski ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ sagði Kalli og glotti.

Eftir að fyrri ráshópur var farinn af stað voru Garðar Benedikt Sigurjónsson úr Golfklúbbi Vestmannaeyinga, og Rúnar Jónsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur, jafnir í 1. flokki á 40 punktum en það kæmi ekki á óvart að nýjir forystusauðir líti dagsins ljós, nokkrir eru að spila vel og voru komnir +3 með tilliti til punkta.

Í öðrum flokki var Einar Guðmundsson úr Golfklúbbi Álftanesar efstur með 41 punkt en Karl Júlíus Sigurgíslason úr GKG var á góðri leið með að bæta það, var á +8!

Frekari fréttir af þessu frábæra móti kom á morgun.

Alltaf er uppselt í Volcano open!

Mjög góð stemning skapast á pallinum í Vestmannaeyjum þegar sólin skínl

Sigurður Jónsson úr Golfklúbbi Grindavíkur skilaði 35 punktum, tók flott birdie á 14. og 15. holu.

Grindvíkingurinn Birgir Hermannsson með Hana, Hænu og Hrauney í baksýn.