Fréttir

Var áhorfandi á Spænska mótinu fyrir 3 árum - vann nú eftir bráðabana gegn stórstjörnunni
Hidalgo vann óvænt á Spænska mótinu í Madríd. Mynd/Getty.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 29. september 2024 kl. 17:16

Var áhorfandi á Spænska mótinu fyrir 3 árum - vann nú eftir bráðabana gegn stórstjörnunni

Það var dramatík og skemmtileg lokabarátta í Madríd þegar óþekktur heimamaður sigraði á Opna spænska mótinu á Club de Campo vellinum. Angel Hidalgo hafði betur gegn stjórstjörnunni Jon Rahm í bráðabana sem freistaði þess að vinna í fjórða sinn.

Hidalgo byrjaði mótið frábærlega og náði forystu á fyrsta degi. Á lokadeginum tapaði hann henni á lokaholunni en hann missti rúmlega eins metra pútt til að sigra á sínu fyrsta móti á DP mótaröðinni. Hidalgo og Rahm fengu báðir fugl á fyrstu holu bráðabanans en sá fyrrnefndi tryggði sér óvæntan sigur þegar hann fékk aftur fugl en Rahm ekki.

Hidalgo var í 398. sæti heimslistans fyrir þetta mót og lék í hitteðfyrra á Alps mótaröðinni í Evrópu. „Þetta er magnað. Ég var áhorfandi hér við 1. braut að fylgjast með Jon Rahm á mótinu fyrir þremur árum. Að koma hingað og vinna mótið og hann í bráðbana er draumi líkast,“ sagði Hidalgo.

Lokastaðan.