Fréttir

Upprifjun: Dramatík á sextándu brautinni í Eyjum - Kristján vann upp 11 högg!
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 27. júlí 2022 kl. 12:32

Upprifjun: Dramatík á sextándu brautinni í Eyjum - Kristján vann upp 11 högg!

Óhætt er að segja að spennustigið hafi verið hátt, bæði í karla- og kvennaflokki á Íslandsmótinu í Vestmannaeyjum árið 2008 . Í umfjöllun í Golf á Íslandi eftir mótið segir að í raun hafi sjaldan eða aldrei verið jafn mikil spenna í báðum flokkum á lokahring. Tvöfaldan bráðabana þurfti og það hefur ekki gerst áður í Íslandsmóti. Ótrúleg mistök Heiðars á 16. teig. 

Sextánda brautin tók toll

Svo segir í umfjöllun blaðsins:
Kristján
Þór Einarsson úr Golfklúbbnum Kili í Mosfells- bæ varð Íslandsmeistari karla í höggleik í Vestmannaeyjum og sigraði eftir bráðabana og umspil við Heiðar Davíð Bragason úr GR og Björgvin Sigurbergsson úr GK sem féll út eftir þriggja holu umspilið. Kristján Þór vann síðan Heiðar á 2. holu í bráðabana, fékk fugl á meðan Heiðar varð að sætta sig við par. Kristján er vel að þessum sigri kominn og lék frábært golf, sérstaklega lokadaginn þegar hann lék völlinn á 69 höggum. Það þarf hæfileika og stáltaugar til þess að taka tvo atvinnumenn í golfi í umspili og bráðabana! Þetta er ekki fyrsti Íslandsmeistaratitill Kristjáns því hann varð m.a. Íslandsmeistari í knattspyrnu í 4. flokki með HK fyrir nokkrum árum. 

Það má segja að Kristján Þór hafi komið bakdyramegin inn í toppbaráttuna. Heiðar Davíð, Björgvin og Ottó Sigurðsson voru búnir að vera mest í sviðsljósinu, en svo kom Kristján og stal senunni á réttum tímapunkti. Fyrir lokahringinn var Heiðar með fimm högga forskot á Björgvin Sigurbergsson og 11 högg á Kristján Þór. Kjalarkylfingurinn lék frábært golf á lokahringnum við erfiðar aðstæður og endaði á samtals 4 höggum yfir pari en datt inn í atburðarás sem enginn sá fyrir í blálokin. Björgvin og Heiðar Davíð gerðu sig seka um ótrúleg mistök á 16. brautinni sem er par 5 en þar er mikil hætta í teighögginu og oft erfitt að hitta brautina með Atlantshafið meðfram allri brautinni. Fyrir hana stefndi allt í öruggan sigur Heiðars Davíðs og þegar lokahollið kom á 16. teig átti hann 3 högg á Björgvin og Ottó var langt á eftir þeim. 

Á þessum tímapunkti var mikill hliðarvindur og því hættan mikil í upphafshögginu. Björgvin setti fyrst einn bolta út af og síðan sló Heiðar þrjá bolta út fyrir vallarmörk, hreint ótrúlegt og hann og fjölmargir aðrir, þar á meðal þúsundir í beinni útsendingu Stöðvar 2 sports, trúðu ekki sínum eigin augum. Heiðar lék brautina á 11 höggum og Björgvin á 8 og voru þeir því orðnir jafnir þegar kom að lokaholunni, þeirri átjándu. Það sem meira er, þegar þeir luku leik á 18. holu var Kristján Þór sem náði fugli þar, allt í einu jafn þeim og því var gripið til þriggja manna umspils. 

Að loknum þremur holum í umspili helltist Björgvin úr lestinni, en Heiðar og Kristján voru enn jafnir. Því var gripið til bráðabana. Þeir voru enn jafnir eftir að hafa leikið 18. braut í bráðabana á pari og fóru því aftur þá átjándu. Að lokum hafði Kristján Þór betur, fékk fugl, og fagnaði vel í mótslok enda fyrsti titill hans staðreynd. 

Íslandsmótið í höggleik verður í Vestmannaeyjum 4.-7. ágúst nk.

Heiðar Davíð á 16. teig þar sem þrír boltara flugu í Atlantshafið.

Björgvin Sigurbergsson var nálægt því að bæta við titli en varð að sjá á eftir honum í umspilinu.